Guðjón A. Kristjánsson:
Herra forseti. Fyrirvari minn snýr að því einu að ég hef mælt fyrir frv. um aðskilnað ríkis og kirkju og að það verði sett í ákveðið ferli og þjóðin fái að kjósa um það ferli. Ef það gengi eftir væri það sett í ákveðna fimm ára aðlögun. Þess vegna hef ég þennan fyrirvara. Ég tel almennt um kirkjumál --- það á einnig við um næsta mál sem hér verður mælt fyrir --- að skoða eigi málin algerlega upp á nýtt með tilliti til aðskilnaðar ríkis og kirkju og þess vegna hef ég þennan fyrirvara.