Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:36:33 (6286)

2002-03-19 18:36:33# 127. lþ. 99.11 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. Forsaga þáltill. þessarar er að á 120. löggjafarþingi var samþykkt ályktun um aukið umferðaröryggi þar sem stefnt var að verulegri fækkun alvarlegra umferðarslysa. Sett var það markmið fyrir árin 1997--2001 að fækka alvarlega slösuðum og látnum í umferðinni um 20% þannig að þeir yrðu færri en 200 í lok tímabilsins, en meðaltal síðustu fjögurra ára þar á undan var 278 látnir eða alvarlega slasaðir.

Skemmst er frá því að segja að markmið þetta náðist á árinu 2001 þrátt fyrir að umferð hefði aukist mikið og bílum fjölgað verulega. Umferðaröryggisnefnd sem var skipuð árið 1996 lauk störfum í árslok 2000. Lokastarf nefndarinnar var að semja drög að nýrri umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2001--2012. Þau drög voru lögð fram á umferðarþingi Umferðarráðs þann 30. nóvember árið 2000.

Í nóvember sl. skipaði ég starfshóp sem falið var að ljúka gerð umferðaröryggisáætlunar og var því verki lokið þann 31. desember sama ár. Í tillögum starfshópsins sem undirbúið hefur þessa áætlun er tekið á öllum helstu viðfangsefnum sem varða umferðaröryggi. Meginniðurstöður og tillögur hópsins eru í grófum dráttum taldar upp í þáltill. sem hér er mælt fyrir. Þarna eru mörg úrræði sem grípa má til í þeirri viðleitni að efla umferðaröryggi. Ég mun ekki fjalla nánar um þessar tillögur hér en vísa til ítarlegrar umfjöllunar í þáltill. og skýrslur starfshópsins um umferðaráætlunina en henni hefur þegar verið dreift á Alþingi og einnig má nálgast hana í dómsmrn.

Hinn 6. febrúar sl. samþykkti ríkisstjórnin að leggja fram nýja stefnumörkun á sviði umferðaröryggismála til næstu 11 ára þar sem takmarkið er að fækka alvarlegum umferðarslysum um 40% miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001. Það getur vissulega verið álitamál hvort leggja eigi til svo háa prósentutölu en hér er um stefnumótun að ræða og því nauðsynlegt að sett séu skýr markmið. Það er gert alls staðar í nágrannalöndunum eftir því sem ég best veit.

Til að takmarki því sem felst í þáltill. verði náð verður að koma til sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og áhugahópa um umferðaröryggismál. Nauðsynlegt er að áætlunin verði stöðugt í endurskoðun og að þeir sem hafa tillögur og athugasemdir við hana geti ávallt komið þeim til dómsmrn. eða til þeirrar nefndar sem mun endurskoða áætlunina. Gert er ráð fyrir í þáltill. að dómsmrh. kynni Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig miði í átt að settu marki. Allshn. mun síðan fara yfir áhersluatriði áætlunarinnar.

Mikið og göfugt markmið er lagt til með þáltill. þessari. Ekki þarf að fjölyrða um þær hræðilegu afleiðingar sem geta orðið við alvarleg umferðarslys og því brýnt að draga eftir fremsta megni úr slíkum afleiðingum. Einungis með markvissum aðgerðum og sameiginlegu átaki þeirra sem þessi mál varða verður takmarkinu náð. Mikið verk er fyrir höndum og er brýnt að málefnið fái þann stuðning sem nauðsynlegur er til árangurs. Vonandi getur svona stefnumótun hjálpað til í þeim efnum.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni þáltill. og legg til að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og síðari umr.