Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:47:40 (6290)

2002-03-19 18:47:40# 127. lþ. 99.11 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi rétt að stytta nokkuð mál mitt áðan vegna þess að stutt er eftir af þingfundinum. Ég vil láta þess getið sem fram kemur í þáltill. að eitt af þeim atriðum sem þar er bent á er að ná víðtækri samvinnu um umferðaröryggisáætlunina þannig að allir sem vinna að umferðaröryggismálum sameinist um að ná markmiðum hennar. Í því skyni er lagt til að skipuð verði framkvæmdanefnd sem hafi það meginverkefni að tryggja að unnið sé í samræmi við umferðaröryggisáætlun þannig að markmiðunum verði náð. Nefndin skili svo skýrslu til Alþingis í byrjun hvers árs þar sem hún gerir grein fyrir hvernig til hafi tekist. Ég tel þetta mjög mikilvægt atriði sem skapa muni meira aðhald í þessum málaflokki.

Það er auðvitað þannig að það þarf að skipa þessa framkvæmdanefnd og tryggja fjármagn til ýmissa aðgerða í tengslum við umferðaröryggismálin. Það er rétt sem hv. þm. bendir á, að fjármagn til löggæslumála hefur verið aukið. Inn í þetta kemur vegáætlun og margt margt annað en þetta er auðvitað ekki bara spurning um fjármagn til góðra hluta heldur líka um ýmsar lagabreytingar, t.d. varðandi það að gera meiri kröfur til ungra ökumanna, bæta stöðu þeirra, t.d. að koma á fót akstursmati. Það er frv. sem ég hef undirbúið og lagt fram. Þar er gert ráð fyrir því að koma á fót sérstöku akstursmati fyrir unga ökumenn og að efla stjórnsýsluna í þessum málaflokki.

Varðandi löggæsluna finnst mér rétt að það komi fram að gert hefur verið sérstakt átak í þessum málum. Lögreglan hefur aukið mjög afskipti sín af umferðarlagabrotum. Það sést mjög áþreifanlega á tölum sem ég hef því miður ekki undir höndum núna en hægt er að útvega. Alls konar samstarfsverkefni hafa verið í gangi á milli umdæma og ég tel mjög ánægjulegt hversu vel lögreglan hefur staðið sig í þessum málum.