Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:49:54 (6291)

2002-03-19 18:49:54# 127. lþ. 99.11 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki skal neinni rýrð kastað á það hvernig lögreglan hefur staðið sig en við vitum öll, og það hefur verið gagnrýnt í þessum sal, að henni hefur kannski ekki verið sniðinn sá stakkur sem æskilegt hefði verið til að tilgangur löggæslunnar næðist og takmark áætlana af þessu tagi.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að benda okkur á að gert sé ráð fyrir að framkvæmdanefnd setji framkvæmdaáætlun og við fáum árlega skýrslu um framgang þessara mála. Ég hvet auðvitað hv. þm. til að halda vöku sinni og fylgjast vel með þessum málum svo að sómi verði af. Auðvitað þarf að bæta stöðu ungra ökumanna og auka öryggi þeirra jafnt sem hinna sem þeir mæta í umferðinni. Hæstv. ráðherra nefnir í því sambandi akstursmat sem er auðvitað sjálfsagt að fari fram.

Ég hef af því spurnir að í nágrannalöndum okkar hafi verið sett stóraukið fé í átak sem þar hefur staðið og kannski væri rétt að við fengjum í lokin svör frá hæstv. ráðherra varðandi það. Er henni kunnugt um hvernig Norðurlöndin hafa verið að efla þennan málaflokk? Hann hefur að því er ég best veit haft ákveðinn forgang. Það er auðvitað sjálfsagt að hv. allshn. kynni sér þau mál nánar í umfjöllun nefndarinnar. Að sjálfsögðu verður þetta mál tekið til nánari skoðunar þar og krufið til mergjar. Ég trúi ekki öðru en það sé sameiginlegt takmark okkar allra sem hér erum inni, að ná að hefta umferðarslysin og að auka umferðaröryggi vegfarenda á vegum úti um allt land, hvort sem er í þéttbýli eða dreifibýli. Um það viljum við auðvitað standa saman.