Norsk Hydro og framkvæmdir við álver

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 13:32:39 (6294)

2002-03-20 13:32:39# 127. lþ. 100.91 fundur 416#B Norsk Hydro og framkvæmdir við álver# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Vegna umræðna sem urðu við upphaf þingfundar í gær um framgang frv. til laga um virkjun Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár í Dal og stækkun Kröfluvirkjunar vil ég taka eftirfarandi fram:

Í samtölum íslenskra stjórnvalda á síðustu dögum við forráðamenn Norsk Hydro hefur komið fram að kaup fyrirtækisins á þýska álfyrirtækinu VAW nú nýlega hafa mikil áhrif á fjárfestingargetu fyrirtækisins a.m.k. fyrst um sinn. Þessi staða hefur að mati forráðamanna Norsk Hydro áhrif á þátttöku fyrirtækisins í byggingu álvers í Reyðarfirði þar sem ákvörðun um þátttöku samkvæmt gildandi tímaáætlun þarf að liggja fyrir í síðasta lagi þann 1. september. Sá tímarammi kann því í ljósi kaupanna á VAW að vera of knappur. Nú er unnið að gerð yfirlýsingar um málið þar sem leitast verður við að eyða óvissu og gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að tímaáætlanir raskist sem minnst. Ég vænti þess að sú yfirlýsing geti legið fyrir í upphafi næstu viku.

Ég vil taka það fram hér að sú staða sem nú er komin upp kemur íslenskum stjórnvöldum í opna skjöldu. Áður höfðu stjórnvöld verið fullvissuð um að fjárfestingar í hinu þýska fyrirtæki hefðu ekki áhrif á þátttöku í Noral-verkefninu.

Herra forseti. Þar sem nú liggur fyrir að fyrrnefnt frv. um virkjun Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal og stækkun Kröfluvirkjunar hefur verið afgreitt úr hv. iðnn. (Forseti hringir.) eftir ítarlega og góða vinnu legg ég áherslu á að það verði að lögum sem allra fyrst. Það er mikilvægt að ekki standi á íslenskum stjórnvöldum í hv. Alþingi til að ná markmiðum um uppbyggingu stóriðju á Austurlandi. Allir aðilar sem komið hafa að málinu telja að hér sé um að ræða hagkvæmt verkefni og því er ég þess fullviss að af því verði.