Norsk Hydro og framkvæmdir við álver

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 13:35:19 (6295)

2002-03-20 13:35:19# 127. lþ. 100.91 fundur 416#B Norsk Hydro og framkvæmdir við álver# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir að gefa þessa yfirlýsingu hér þó að í henni sé kannski ekki fólgið mikið inntak annað en það að við megum vænta frétta af málinu eftir helgi. Það er samt orðið ljóst og viðurkennt með þessu að frétt á baksíðu Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum á við rök að styðjast og það hefur líka mátt ljóst vera af þeim viðbrögðum forsvarsmanna Norsk Hydro að bera fréttina ekki til baka.

Nú liggur sem sagt fyrir að fjárfesting Norsk Hydro og kaup á þýska álfyrirtækinu Vereinigten Aluminiumwerke hefur áhrif á fjárfestingu þeirra á Íslandi og þá er samhengi málsins orðið nokkuð ljóst. Þess er að vænta, ef ráða má í þær upplýsingar sem fyrir liggja, að tímaáætlunin hið minnsta raskist og þá á þann veg að hlutirnir tefjist umtalsvert. Í því ljósi, herra forseti, er alveg skýrt að Alþingi hefur meiri tíma á höndum og það ber enga nauðsyn til að hraða málum í óðagoti og óvissu í gegnum þingið. Sjálfsagt og sjálfgefið er að hreyfa ekki frekar við frv. til laga um virkjunarleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun fyrr en málin hafa skýrst og í öllu falli ekki fyrr en sú nýja yfirlýsing sem ráðherra boðar að mögulega verði hægt að skýra frá eftir helgi liggur fyrir. Ég held því, herra forseti, að við ættum ekki að þurfa að ræða það mál frekar a.m.k. Það væri beinlínis hlálegt ef Alþingi tæki málið nú til umfjöllunar sólarhringum áður en boðuð er opinber yfirlýsing aðila um málið.