Norsk Hydro og framkvæmdir við álver

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 13:41:06 (6298)

2002-03-20 13:41:06# 127. lþ. 100.91 fundur 416#B Norsk Hydro og framkvæmdir við álver# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta eru ekki lítil tíðindi sem hér eru flutt þó að menn hafi grunað að svona gæti gerst. En það liggur þá fyrir að Norsk Hydro er a.m.k. að lýsa því yfir að ekki verði af framkvæmdum á þeim tíma sem talað hefur verið um og að það þurfi í það minnsta að semja um einhvers konar tímafresti.

Mér finnst ástæða til að hvetja íslensk stjórnvöld til að taka á málinu af festu og krefjast þess að í þeim samningum verði gengið frá því endanlega hvenær framkvæmdir hefjast og hvort af þessu verði. Það er ástæða til þess að hægt sé að gera það núna í beinu framhaldi af því sem þarna hefur gerst vegna þess að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að þessi álhringur hefði fullvissað stjórnvöld um að fjárfesting í álverunum í Þýskalandi hefði ekki áhrif á fyrirætlanirnar um álver fyrir austan. Nú er komið í ljós að það er rangt. Þess vegna verður að ganga enn fastar eftir því að teknar verði endanlegar ákvarðanir og ástæða er til að krefjast þess að ákvarðanir um það hvenær framkvæmdir hefjast verði teknar strax.

Hins vegar ekkert kappsmál fyrir Íslendinga að mínu viti að þær hefjist í haust. Nógar framkvæmdir eru fram undan í svona málum á næstunni þó svo þetta dragist um einhvern tíma. Verið getur að það væri verra fyrir Austfirðinga, þ.e. að þeim þætti það. En þó væri alla vega skárra að vita hvenær framkvæmdir hæfust en að bíða í óvissu. Og það væri betra fyrir efnahagslífið í landinu í heild að þessar framkvæmdir mundu tefjast eitthvað frá því sem menn höfðu stefnt að nú í haust. Ég held að það sé augljóst af öllum þeim upplýsingum sem hafa komið um efnahagsleg áhrif af þessum framkvæmdum.