Norsk Hydro og framkvæmdir við álver

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 13:43:13 (6299)

2002-03-20 13:43:13# 127. lþ. 100.91 fundur 416#B Norsk Hydro og framkvæmdir við álver# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er auðvitað svo að Norsk Hydro hefur ekki einkaleyfi á álveri við Reyðarfjörð og það verður að meta í fullri alvöru hvernig staðan er eins og nú er komið. En ég skildi hæstv. iðnrh. svo að sá dráttur sem sýnilega verður á framkvæmdum verði ekki langur og er auðvitað gott til þess að vita ef svo er. Auðvitað verða þessi mál að skýrast og það verður að liggja ljóst fyrir hver sé vilji og hver sé stefna hins norska stórfyrirtækis. Við höfum bundið okkur og fest okkur við það. En ef í ljós kemur að það fylgir ekki full alvara í samningsgerðinni af þeirra hálfu þá verðum við líka að taka því.

Ég vil leggja áherslu á að mikilvægt er og óhjákvæmilegt að Alþingi samþykki frv. um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsá í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar til þess að auðvelda það og gera það mögulegt að leita til annarra aðila ef Norsk Hydro heltist úr lestinni. Það auðveldar alla samningagerð og bætir samningsstöðu okkar. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Ég vil að síðustu segja að þessir atburðir sýna okkur hversu vandasamt verk það er og mikilvægt að vel sé á því haldið hvernig við getum nýtt náttúruauðlindir okkar. Lífskjör okkar Íslendinga velta á því að gjaldeyrissköpun okkar og gjaldeyrisöflun sé vaxandi, sé í lagi og sé traust. Einungis þannig getum við bætt lífskjör okkar til frambúðar og búið betur í haginn í okkar landi. Það eru engar patentlausnir til sem hjálpa okkur til að hjálpa okkur sjálfir. Við verðum að reiða okkur á okkur sjálf í þeim efnum.