Norsk Hydro og framkvæmdir við álver

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 13:45:21 (6300)

2002-03-20 13:45:21# 127. lþ. 100.91 fundur 416#B Norsk Hydro og framkvæmdir við álver# (aths. um störf þingsins), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur um hvort hér verði um seinkun að ræða. Það er augljóst af orðum hennar að væntanlega verði einhverjir frestir en eins og hún lagði áherslu á er það meiningin að tímaramminn varðandi þessa virkjun raskist sem minnst. Á það ber að leggja áherslu í viðræðum við þá aðila sem þarna er um að ræða, Norsk Hydro.

Það er augljóst að sú undirbúningsvinna sem hefur farið fram er mjög mikilvæg og hefur grundvallaráhrif á að hægt verði að fara í þessa virkjun. Virkjunin sem slík tekur lengri tíma en bygging álvers og því er mjög mikilvægt að þó svo nýir aðilar komi að byggingu álversins geti allur sá undirbúningur sem unninn hefur verið að við virkjunina nýst sem best og hægt verði að fara sem fyrst af stað í það verkefni.

Þess vegna er það grundvallaratriði að við á Alþingi höldum áfram vinnunni við þetta frv. og ljúkum henni. Ég sé enga ástæðu til þess að draga umræður um það á langinn. Yfirferðinni fyrir 2. umr. hefur verið lokið í iðnn. og ekki er ástæða til að taka lengri tíma í það en orðið er. Eins og ráðherra nefndi, þá er gert ráð fyrir að þessi yfirlýsing komi innan skamms og þess vegna eigum við að halda áfram á fullum dampi til að ljúka okkar verki í þinginu.