Norsk Hydro og framkvæmdir við álver

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 13:47:34 (6301)

2002-03-20 13:47:34# 127. lþ. 100.91 fundur 416#B Norsk Hydro og framkvæmdir við álver# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. iðnrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hér kom fram í byrjun fundar þó auðvitað sé því ekki að neita að hún veldur að sjálfsögðu miklum vonbrigðum af þeirri einföldu ástæðu að þetta er ekki í fyrsta skipti sem boðuð er seinkun á þeim framkvæmdum sem við Austfirðingar höfum beðið allt of lengi eftir.

Hins vegar verður auðvitað að hafa í huga, eins og skýrt kom fram hjá hæstv. ráðherra, að mikilvægt er að sá tíma\-rammi sem nú er settur raskist sem allra minnst og einnig það að yfirlýsingar um málið komi fram sem allra fyrst og ekki seinna en í næstu viku.

Hins vegar er jafnljóst að það er mikilvægt fyrir Alþingi að afgreiða virkjunarleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun svo fljótt sem verða má. Það er eðlilegt að taka fram, það sem fram kom í umræðum í gær, að fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn. hafa engar athugasemdir gert við þau störf sem þar hafa farið fram. Því verki er lokið og ekki eftir neinu að bíða með að það frv. komi til umræðu í þinginu.

Athyglisvert er að vinstri grænir, sem er á móti málinu eins og sést af öllum þeim tegundum andmæla sem hægt er að hugsa sér, skuli velta því upp að þetta hafi einhver hugsanleg áhrif á þeirra afstöðu í málinu. Að sjálfsögðu mun það engin áhrif hafa á þeirra afstöðu. Þeir eru jafnmikið á móti málinu í heild sinni, sama hvort það er Norsk Hydro sem ætlar sér að reisa álver í Reyðarfirði eða einhverjir aðrir. Andstaða þeirra er alger og því mun þetta ekki skipta neinu máli fyrir þá. Þetta mál er hins vegar miklu stærra en svo að við getum hlustað á þær raddir. Við verðum þess vegna leggja höfuðáherslu á að stjórnvöld beiti sér af fullum krafti til að fá fullnægjandi yfirlýsingar frá Norsk Hydro um hvort þeir ætli að vera í þessu máli eða ekki.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hversu langan frest er hugsanlegt að gefa Norsk Hydro til að gefa skýr svör þannig að það sé hægt að koma þessum gullmola í það verðmæti sem við þurfum á að halda?