Lyf sem falla út af sérlyfjaskrá

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:25:56 (6307)

2002-03-20 14:25:56# 127. lþ. 101.3 fundur 447. mál: #A lyf sem falla út af sérlyfjaskrá# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja spurningar fyrir hæstv. heilbrrh. varðandi þau vandamál sem skapast þegar lyf falla út af lyfjaskrá. Svo er að ný lyf eru yfirleitt markaðssett sem sérlyf og koma inn á lyfjaskrá. Þau eru dýr, sem að nokkru leyti stafar af því að þróun og markaðssetning nýrra lyfja kostar mikið fé.

Hins vegar er það svo að þrátt fyrir miklar framfarir í lyfjaþróun þá eru mörg sígild lyf áfram mjög mikilvæg og daglega notuð. Nægir þar að nefna lyf eins og asperín og parasetamól. Hins vegar vill það bera við að þegar lyf eru orðin gömul, ekki lengur háð sérleyfum og margir hafa tekið til við að framleiða þau, að verðið lækkar mjög.

Þá kemur til sögunnar séríslenskt vandamál, a.m.k. er það ekki þekkt annars staðar í Vestur-Evrópu svo að ég viti til, þ.e. að þegar lyf er orðið nógu ódýrt sjá íslenskir lyfjaframleiðendur og íslenskir umboðsmenn erlendra sérlyfjaframleiðenda sér ekki lengur hag í að hafa viðkomandi lyf á skrá. Viðkomandi lyf eru þá tekin út af skrá Lyfjastofnunar og kosta eftir það lækni og viðkomandi aðila mikla skriffinnsku og fyrirhöfn að ávísa lyfinu í gegnum apótek og fá það afgreitt á grundvelli undanþágu.

Þetta gildir um fjölmörg almenn lyf sem hafa mikið notagildi enn þann dag í dag. Má sem dæmi nefna hormónalyfið hydrocortison sem er kjörlyf vegna vanstarfsemi í nýrnahettuberki. Það má nefna flogaveikilyfið fenemal og sýklalyfið nitrofurantoin o.fl.

Það má líka nefna, herra forseti, dæmi um hversu geysilegur viðbótarkostnaður lendir á notendunum til viðbótar þessu óhagræði sem ég hef áður nefnt. Þannig má sem dæmi taka að samkvæmt undanþágulista Lyfjastofnunar frá því í janúar 2002 er lyfið thyroxin, sem a.m.k. 4 þúsund Íslendingar verða að taka daglega vegna vanstarfsemi í skjaldkirtli, aðeins fáanlegt í 0,05 milligramma töflum hérlendis og kosta 100 töflur 1.347 kr. Skammtur til 100 daga handa sjúklingi með þessi vandamál hefur þá hækkað úr 524 kr. áður í 2.694 kr. vegna þess viðbótarkostnaðar sem því fylgir að lyfið er fallið út af lyfjaskrá. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. heilbrrh.:

Hefur ráðherra í hyggju að grípa til einhverra aðgerða vegna þess viðbótarkostnaðar sem leggst á lyf sem fallið hafa út af lyfjaskrá en eru áfram í notkun?