Úrbætur í fjarskiptamálum á Norðausturlandi

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:40:47 (6313)

2002-03-20 14:40:47# 127. lþ. 101.5 fundur 498. mál: #A úrbætur í fjarskiptamálum á Norðausturlandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ber upp fyrirspurn:

,,Eru fyrirhugaðar á næstunni aðgerðir af hálfu Landssíma Íslands hf. eða hins opinbera til að koma á ljósleiðarasambandi við alla þéttbýlisstaði á Norðausturlandi eða tryggja fullnægjandi öryggi og flutningsgetu grunnnetsins með einhverjum öðrum aðgerðum?``

Svar mitt er svohljóðandi: Ekki eru fyrirhugaðar af hálfu Landssímans neinar framkvæmdir á Norðausturlandi á þessu ári í uppbyggingu í sambandi við þéttbýlisstaði. Nú þegar er ljósleiðarasamband við alla þýttbýlisstaði á svæðinu nema Raufarhöfn og Kópasker en þeir staðir eru tengdir með örbylgjusamböndum.

Samkvæmt upplýsingum frá Landssímanum hefur ekki, enn sem komið er, vantað meiri flutningsgetu sambanda á þessa staði og raunar er flutningsgeta sambandsins til Raufarhafnar mun meiri en þörfin á staðnum, samkvæmt upplýsingum sem Landssíminn hefur veitt ráðuneytinu.

Í annan stað er spurt:

,,Hvað kosta nauðsynlegar aðgerðir af því tagi sem að framan greinir og í hverju yrðu þær fólgnar?``

Svar mitt er svohljóðandi: Gerðar hafa verið áætlanir hjá fyrirtækinu um á hvern hátt væri hægt að tvöfalda samböndin til þessara staða til að auka öryggi þeirra. Þar hefur helst verið skoðaður sá möguleiki að leggja ljósleiðarastreng frá Lundi í Öxarfirði til Kópaskers og áfram upp á Snartarstaðanúp og setja upp örbylgjusambönd þaðan til Raufarhafnar eins og fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda. Heildarkostnaður er væntanlega á því bili sem fram kom hjá fyrirspyrjanda, samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur en miðast auðvitað við þær lausnir sem yrðu fyrir valinu. Hins vegar er alveg ljóst að það skiptir mjög miklu máli að flutningsgeta fjarskiptakerfisins um landið sé fullnægjandi og að fyllsta öryggis sé gætt. Þess vegna tek ég undir það, sem endurspeglast í fyrirspurnum hv. þm., að við þurfum að leita allra leiða til að uppbygging fjarskiptanetsins um landið verði viðunandi, verði sem best og uppfylli öryggiskröfur íbúa á þessum svæðum.

Í ráðuneytinu hefur verið unnið að því að leita leiða til að tryggja fyrirkomulag og framkvæmd sem gæti sem best gagnast þeim sem þurfa að nýta fjarskiptanetið, ekki síst varðandi gagnaflutninga. Við heyrum af því að ný fyrirtæki, Fjarski og Lína.Net, hafi verið að leggja ljósleiðara yfir hálendið, m.a. vegna samninga sem gerðir hafa verið við háskólastofnanir. Þannig eru ýmsir að huga að endurbótum sem betur fer. Það er af hinu góða. En auðvitað verður enn um sinn og jafnvel nokkuð lengi gerð sú krafa til Landssíma Íslands hf. að hann verði í forustu um uppbyggingu, enda á Síminn öflugt net vítt og breitt um landið sem er að sjálfsögðu mikilvægt að nýta. Á það verður að leggja áherslu.

Ég hef rætt um það við forsvarsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar að huga þurfi að því að reglur séu sem skýrastar um þær kröfur sem gerðar eru til fjarskiptafyrirtækja hvað varðar gagnaflutninga. Það er ríkur vilji til þess í ráðuneytinu að stuðla að sem mestum og bestum lausnum á þjónustu fjarskiptafyrirtækjanna og fjarskiptakerfisins við íbúa hinna dreifðu byggða.