Skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:55:25 (6318)

2002-03-20 14:55:25# 127. lþ. 101.6 fundur 542. mál: #A skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KVM
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með að starfsemi rannsóknarnefndar sjóslysa hafi verið flutt út á land og sé komin í góða aðstöðu þar sem var flugskýlið í Stykkishólmi á sínum tíma. Ég þakka einnig þessa fyrirspurn því að nauðsynlegt er að menn fái þessar skýrslur í hendur. Ég veit að það hefur skipt sjómenn máli að fá þær um borð í bátana til sín, og togarana sums staðar. Þeir hafa verið að skoða þær og velta fyrir sér orsökum slysanna. Það felur líka í sér heilmikið forvarnagildi og menn eru þá meira vakandi fyrir hættum á sjó.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði líka, þetta hefur bæði kynningar- og fræðslugildi fyrir þá sem lesa skýrsluna.