Kræklingarækt

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:21:39 (6329)

2002-03-20 15:21:39# 127. lþ. 101.8 fundur 513. mál: #A kræklingarækt# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KVM
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra. Í ljós kemur eða skilja má það svo að styrkveitingar eru ekki beint alveg markvissar og ætlaðar sérstaklega til fyrirtækja sem eru að byrja og eru í raun og veru brautryðjendur. Tel ég að það ætti ekki að vera tiltökumál að styðja við bakið á aðilum sem eru að byrja með þetta því að þetta er grein sem gæti orðið gífurlega sterk og mikil hér á landi. Þegar við horfum t.d. til þess hvað lagt hefur verið gífurlega mikið fjármagn í undirbúning vegna Reyðaráls og alls þess, þá held ég að það væri bara örlítill dropi í hafið miðað við þær fjárhæðir sem þyrfti að setja til að efla og styrkja kræklingaeldi hér á landi svo um munaði.

Það kemur fram í viðtali í Ægi, herra forseti, við Friðrik Sigurðsson sjávarlíffræðing, sem er framkvæmdastjóri Norshell í Noregi, að Norðmenn stefni að því að framleiða 20 þúsund tonn innan þriggja ára og takmarkið hjá þeim er að framleiða 45 þúsund tonn af kræklingi. Ég spyr: Hvar erum við stödd í öllum svona málum þar sem möguleikar eru til nýsköpunar og eflingar á þeim atvinnugreinum sem við höfum í sjávarútvegi? Náttúran okkar er hrein og tær og hafið. Þar eru stórkostleg tækifæri sem felast í því fyrir okkur. Eitt helsta vandamálið núna t.d. hjá Belgum og Hollendingum sem rækta mikið af skel er plássleysi og mengun sjávarins þannig að tækifærin liggja hjá okkur og við ættum að sýna meiri dirfsku og setja meira fjármagn í þetta.