Kræklingarækt

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:23:56 (6330)

2002-03-20 15:23:56# 127. lþ. 101.8 fundur 513. mál: #A kræklingarækt# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Út af fyrir sig er rétt að ekki er um mikla styrki að ræða til kræklingaræktunar en það er hins vegar ekki alltaf magnið sem skiptir máli í þessu sambandi. Það er líka rétt að hafa í huga að kræklingarækt er ekki mjög fjármagnsfrek ræktun hvað varðar fjárfestingar. Það sem skiptir auðvitað máli er að þeim fjármunum sem við verjum til rannsókna og styrkja í þessari grein sé varið á markvissan hátt. Það hefur verið stefnan og það hefur skilað okkur árangri eins og t.d. í sambandi við lúðueldið. Þar hafa Norðmenn eytt margföldum þeim fjármunum sem við höfum eytt en ekki náð sama árangri og Fiskeldi Eyjafjarðar hefur náð.

Varðandi þau markmið sem Norðmenn hafa sett sér, þá búa þeir við talsvert aðrar aðstæður. Hitastig með ströndum Noregs er talsvert hærra en hitastig yfirleitt í sjónum í kringum Ísland og eldi allra sjávardýra er mjög háð hitastigi.

Svo við víkjum aftur að fjármununum þá held ég samt sem áður að miðað við þá fjármuni sem hafa verið til ráðstöfunar til styrkja í eldi sjávardýra, þá geti kræklingaræktin ekki kvartað því að á fjárlögum síðustu ára hafa verið 19,1 millj. kr. til að veita styrki í eldi sjávardýra og miðað við þær tölur sem hér hafa komið fram hefur kræklingaræktin fengið 20% af þeim fjármunum. Hins vegar skiptir auðvitað mestu máli að það umhverfi sem verið er að rækta kræklinginn í sé heilnæmt. Þá kemur að því hvernig samskiptin eru við aðrar tegundir eldis og það er einmitt það sem verið er að vinna að núna, heilnæmisathugunin, og það starf sem fram undan væri í hinni sameiginlegu fiskeldisnefnd sjútvrn. og landbrn.