Vistvænt eldsneyti

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:46:30 (6338)

2002-03-20 15:46:30# 127. lþ. 101.10 fundur 585. mál: #A vistvænt eldsneyti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Það er gífurlegur áhugi erlendis á því að skoða vetni sem eldsneytisgjafa framtíðarinnar. Í Bandaríkjunum hefur verið haldinn fundur á Capital Hill, ég hef sagt það áður í þessum sal, þar sem hékk stórt landakort af Íslandi uppi á vegg og sagt að þarna væru framsýn stjórnvöld sem væru að undirbúa það að Ísland gæti orðið fyrsta hreina hagkerfið af því að menn halda að hér sé verið að gera miklu meira af hálfu stjórnvalda en raun ber vitni.

Ég hef líka verið að vona að gerð yrði heildstæð úttekt á orkumálum samgangna. Það hefur ekki verið gert. Ekki er búin til áætlun um þróun orku og samgangna með tilliti til vetnisvæðingar. Ekki er sett fjármagn í rannsóknir á lághitasvæðum sem skipta máli í orkuvæðingarstefnunni. Það sem verið er að gera eru áætlanir um orkuframleiðslu til stóriðju og ég tók eftir því að hæstv. iðnrh. nefndi ekkert að hún hygðist ræða við fulltrúa stóriðjufyrirtækja um samvinnu til að nýta afgas. Mér er kunnugt um að þau stóriðjufyrirtæki sem fyrir eru eru ekki öll jafnhrifin af því. Það er einhver kostnaður fyrir þau þó að auðvitað ætti að líta á það, a.m.k. ef það á eftir að verða þannig að útblástur sé kvóti sem kostar, að það sé eftirsóknarvert fyrir t.d. eitt stykki álver að minnka útblástur hjá sér eins og unnt er, t.d. með þessu. Ég hvet hæstv. iðnrh. til þess að ef það á eftir að gerast að hingað komi t.d. eitthvert fyrirtæki og vilji byggja álver eða ef skoðaðar verða umsóknir frá bæði Norðuráli og álverinu í Straumsvík um orku þegar búið verður að leggja Hydro-verkefnið til hliðar, ef það verður niðurstaðan, þá setji menn slík ákvæði inn í hugsanlega samninga.