Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:35:43 (6342)

2002-03-21 10:35:43# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er frekar óvanalegt að hér séu til umfjöllunar heimasíður viðkomandi þingmanna eða ráðherra en ég þakka hv. þm. kærlega fyrir að auglýsa heimasíðuna mína, valgerdur.is. Þar er ýmislegt sagt sem viðkomandi er að hugsa í það og það skiptið og velta fyrir sér og það var full ástæða til þess að loknu iðnþingi að skrifa leiðara í tilefni þess sem þar kom fram sem var svo sannarlega merkilegt og athyglisvert og hefur verið til umfjöllunar í þjóðfélaginu síðustu dagana.

Ég held að ekkert hafi verið ofsagt í þessum pistli. Það eru bara staðreyndir sem liggja fyrir sem þarna er bryddað á og komið inn á eins og með gjaldmiðil í litlu hagkerfi miðað við stór hagkerfi og það að ég dæmi krónuna í 2. eða 3. deild eru orð hv. þm. Ég er þarna að fara yfir staðreyndir eins og þær horfa við mér.

Það sem ég tala um í sambandi við evruna og upptöku Bretlands, Svíþjóðar og Danmerkur á evru er engin speki sem kemur frá mér. Þetta er bara það sem umtalað er og allir gera sér grein fyrir að það hefur mikil áhrif á íslensku krónuna og atvinnulíf okkar og hagkerfi ef svo fer að þessar þjóðir taka innan tíðar upp evru.

En mér þykir ánægjulegt að hv. þm. lesi heimasíðuna vegna þess að það kemur fyrir þó nokkrum sinnum að nafn hans er nefnt á þeirri heimasíðu og það er mikilvægt fyrir mig að vita að hann lesi hana.