Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:37:42 (6343)

2002-03-21 10:37:42# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Af þessu tilefni er óhjákvæmilegt að rifja upp að það er síður en svo að sömu vextir séu alls staðar á evrusvæðinu. T.d. eru hærri vextir í ýmsum litlum samfélögum en í hinum stærri ríkjum, eins og á Írlandi svo dæmi sé tekið.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að ef horft er til langtímalána eins og t.d. húsnæðislána í Frakklandi, þá eru þau helst ekki nema til 15 ára og með 7,5% vöxtum. En ef við horfum á verðtryggð íslensk lán, þá eru húsbréf með 5,1% vöxtum og ef við tökum tillit til affalla verða vextir rétt um 6% en verðbólgumarkmið Evrópusambandsins eru 1,5% þannig að vextirnir yrðu þá hinir sömu nema sá er munurinn að hægt er að fá lán til miklu lengri tíma hér á landi til húsnæðiskaupa en t.d. í Frakklandi, þessu höfuðríki Evrópusambandsins sem vill ásamt Þýskalandi vera í Evrópuhraðlestinni og oft er vitnað til.

Ég vil í annan stað benda á það þegar verið er að tala um erlendan gjaldmiðil að við getum ekki fengið einhvern happdrættisvinning með því að taka upp evrópskan gjaldmiðil, 150 þús. kr. á fjölskyldu eða slíkt, það er ekki hægt. Það er ekki hægt að búa til peninga með þeim hætti. En á hinn bóginn hygg ég að hæstv. viðskrh. hljóti að vera sammála mér um það ef við horfum á þær sveiflur eða þau áföll sem við urðum fyrir á tveim síðustu árum og ef við hefðum setið uppi með evruna hefði það óhjákvæmilega leitt til 8--10% atvinnuleysis. Þá er auðvitað spurningin sú hvort við viljum hafa íslenskan gjaldmiðil og taka efnahagslegum áföllum á okkar eigin forsendum eða stjórna íslenska ríkinu með því að skammta mönnum atvinnu.