Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:39:53 (6344)

2002-03-21 10:39:53# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil hvetja hæstv. viðskrh. til að skrifa sem mest á heimasíðu sína vegna þess að þar koma fram ýmis sannleikskorn sem hæstv. ráðherra greinilega treystir sér ekki til að fara með t.d. úr ræðustól þingsins. Ég hjó náttúrlega eftir því að þar kom fram að ráðherranum líst ekkert á vaxtaokrið í þjóðfélaginu sem hún telur að sé að sliga heimili og atvinnulíf og ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra.

Við sjáum hvað er að gerast þessa dagana eins og í gær og í dag, að bankarnir eru loksins að druslast til að lækka vexti um 0,25%, bæði á innlánum og útlánum, vaxtamunurinn er þá sá hinn sami og þeir elta hver annan, þannig að um 0,25% lækkun er að ræða hjá öllum bönkunum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún ekki að það þurfi að láta Samkeppnisstofnun skoða betur bankakerfið og fákeppnina sem þar ríkir vegna þess að vaxtaokrið bitnar fyrst og fremst á heimilunum og smærri fyrirtækjum en stóru fyrirtækin og fyrirtækjablokkirnar geta leitað með lántökur sínar erlendis? Við sjáum að vaxtatekjur umfram vaxtagjöld hjá þessum þremur bönkum voru hvorki meira né minna en 25 milljarðar kr. á síðasta ári fyrir utan þóknun sem var 11 milljarðar, við erum því að tala um 36 milljarða sem þeir hafa haft umfram vaxtagjöld sín. Þarna er því verk að vinna, hæstv. ráðherra, og ég skora á hæstv. ráðherra að fara að beita sér eins og hún getur í því efni að tekið sé á þeirri fákeppni sem ríkir á bankamarkaðnum. Við sjáum það glöggt í gær og í dag þegar bankarnir elta hver annan með smávægilegri vaxtalækkun sem kemur þannig fram að vaxtamunurinn er sá sami og þar sjáum við glöggt hvernig fákeppnin er á þeim markaði.