Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:48:37 (6348)

2002-03-21 10:48:37# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Af því að menn hafa verið að agnúast út í heimasíðu hæstv. iðnrh. Valgerðar Sverrisdóttur og talað um að henni væri nær að einhenda sér í að lækka vextina þá er það einfaldlega svo að nú hefur hæstv. ráðherra fellt sinn hramm á heimasíðunni og hvað gerist? Vextirnir lækka. Ég segi nú bara: Megi hæstv. ráðherra skrifa sem oftast á þessa heimasíðu sína.

Málið er mér kannski pínulítið skylt líka af því að móðir mín heitir Valgerður, amma og langamma líka þannig að ég held alltaf með konum með þetta nafn þegar þær lenda í vandræðum eða verða fyrir árásum ofbeldisfullra manna.

En ég vil hins vegar gera að umræðuefni það sem mér sýnist reyndar sameina hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og hv. 1. þm. Norðurl. e. Þeir ræða hvor um sig um að hættulegt sé að segja hreint út hvað felst í veikleika krónunnar og styrkleika hennar líka. Hver er styrkleiki hennar? Jú, þeir hv. tveir þingmenn eru sammála því að styrkleikinn í núverandi hagkerfi felist í því að það er hægt að fella hana. Til hvers? Til þess að lækka raunlaun fólksins sem við erum að berjast fyrir? Til þess að hækka verðlag í landinu?

Staðreyndin er einfaldlega sú að við erum stödd á sérkennilegu skeiði þar sem við þurfum að vega það og meta til frambúðar hvort okkur takist, með hagsmuni fólksins í landinu að leiðarljósi, að halda krónunni. Það er hreint ekki víst. Sú umræða sem geisar í landinu núna innan Framsfl., innan Vinstri grænna, þ.e. á flestum stöðum nema í Sjálfstfl., brýst auðvitað fram með réttmætum hætti á heimasíðu hæstv. ráðherra.

Spurningin sem ráðherrann sem ráðherra viðskiptamála er að velta fyrir sér er einfaldlega þessi: Ber okkur að taka upp evruna? Er það jákvætt fyrir íslenskt viðskiptalíf? Mér sýnist að hún og partur af flokki hennar hafi komist að þeirri niðurstöðu að svarið sé já. Þá verða þau líka einhvern tíma að komast að niðurstöðu um það sem því fylgir, að flokkurinn verði þá að taka upp þá stefnu að ganga í Evrópusambandið því annars getur draumur hæstv. viðskrh. ekki orðið að veruleika.