Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:04:17 (6357)

2002-03-21 11:04:17# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil koma forseta til varnar og þakka honum fyrir að hann gerði engar athugasemdir við að hér fór fram sú umræða sem þessi fundur hófst á, um störf þingsins. Þau rök sem ég hef fyrir því að hún hafi verið fullkomlega eðlileg og athugasemdir hv. þm. Hjálmars Árnasonar ómálefnalegar eru að þetta efni sem tekið var upp gaf fullt tilefni til pólitískra skoðanaskipta. Ráðherra í ríkisstjórn var með yfirlýsingar um efnisleg málefni og menn mega ekki gleyma því, þeir sem starfa á Alþingi, að Alþingi hefur fleiri hlutverk en að setja lög. Alþingi er líka einn helsti vettvangur pólitískra skoðanaskipta og rökræðna í þessu landi og það er hluti af lýðræðinu sem við byggjum á að menn geti hér skipst á skoðunum, að stjórnarandstaða geti spurt ríkisstjórn og veitt henni aðhald. Ég tel að það mál sem hér var tekið upp hafi gefið fullt tilefni til að ræða það og þróunin hefur orðið sú að þessum lið, um störf þingsins, hefur með túlkunum verið gefið aukið svigrúm til að taka upp slík pólitísk mál.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að einhver slík tenging eigi að vera til staðar og annaðhvort eigi að vera um bein viðfangsefni þingsins að ræða eða pólitísk mál sem gefi tilefni til pólitískra skoðanaskipta, rökræðna, og þess að ráðherrar séu spurðir út úr o.s.frv.

Ég get reyndar verið sammála hv. þm. Sverri Hermannssyni um að gjarnan mætti huga að því að kalla þennan dagskrárlið, þetta form, öðru nafni í samræmi við þá breyttu túlkun sem hér hefur á orðið. Ætluðu menn hins vegar að taka upp mál sem ekki hefði slíka pólitíska skírskotun og ekki varðaði störf þingsins, við skulum segja hreint faglegt viðfangsefni af einhverjum toga eða einkaáhugamál einhvers einstaks þingmanns, væru menn komnir út fyrir efnið þannig að ég lít ekki svo á að sú hefð hafi verið fest hér í sessi að menn geti rætt um algerlega hvað sem er. Þá held ég að væri líka nokkuð langt gengið.

Ég held í sjálfu sér að hvað sem segja má um þróunina og túlkun eða beitingu þessa forms að undanförnu hafi í öllu falli ekki verið nokkur minnsta ástæða til að gera athugasemdir af þessu tilefni þannig að ég tel að forseti hafi gert hárrétt og forseti er sá sem situr á forsetastóli á hverjum tíma. Á hverjum tíma, vel að merkja. Mér leiðast þær ambögur manna hér að tala með öðrum hætti við forseta þó að í stólnum sé einn af varaforsetum þingsins. Það er óefnislegt. Forsetinn er sá sem situr í forsetastólnum og hefur óskorað fundarstjórnarvald á hverjum tíma. Engu máli skiptir hver þeirra það er enda prýðilega á því haldið, t.d. núna.