Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:10:59 (6360)

2002-03-21 11:10:59# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), KolH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:10]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Umræða sú sem hér fer fram um þetta fyrirkomulag sem hefur verið að ryðja sér til rúms gerir, eins og þingmenn hafa getið hér um, þingstörfin í sjálfu sér líflegri. Ég get að því leytinu til fagnað því að sá háttur skuli hafður hér á og festur í sessi að þingmönnum gefist tækifæri í upphafi þingfunda til að ræða um þau mál sem upp koma og eru ofarlega á baugi.

Hitt vil ég jafnframt benda á í ljósi þess að þetta er breyting á því sem hefur verið viðhaft og breytingin er að festa sig í sessi, skrefið er að verða stærra en var fyrir einu og hálfu ári, og þess vegna held ég að forsn. sé nauðsyn á að taka til umfjöllunar hinar hefðbundnu utandagskrárumræður því að mér hefur virst, herra forseti, sem þær hafi með þessari nýbreytni verið lækkaðar í sessi. Gildi þeirra er ekki hið sama og það var fyrir tveimur árum.

Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt ef þingið, forsn. og þingmenn, er á einu máli um það að af þessari breytingu eigi að verða og þessi breyting eigi að verða fullburða verði að taka til umfjöllunar hér, herra forseti, hvernig við breytum þá hinum hefðbundnu utandagskrárumræðum. Þær hafa á seinni missirum haft tilhneigingu til að verða eftirbátar, þær hafa lent aftar og aftar í biðröðinni og mál sem við þingmenn höfum talið að ætti að taka upp samkvæmt þingsköpum undir dagskrárliðnum umræða utan dagskrár, hafa verið mál sem okkur finnst áríðandi að komi til umræðu.

Í 50. gr. þingskapalaganna, herra forseti, er þeim svo lýst, með leyfi forseta:

,,Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveimur klukkustundum áður en þingfundur hefst.``

Þessi orð gefa til kynna að hér sé ætlast til að um áríðandi málefni sé að ræða, svo áríðandi að þau virðast samkvæmt orðanna hljóðan hér, herra forseti, eiga að koma á dagskrá mjög skömmu eftir að beiðni um slíkt berst. Ég held því að það sé greinilegt að í ljósi þeirra breytinga sem hér hafa átt sér stað tökum við til umfjöllunar hvaða breytingar við viljum þá að verði á hinum hefðbundnu umræðum utan dagskrár og því sem kallað er umræður um mikilvæg og aðkallandi mál í 50. gr. þingskapalaganna.