Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:16:15 (6362)

2002-03-21 11:16:15# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), HBl
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:16]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hygg að tilgangurinn með þeim þingsköpum sem við nú höfum hafi m.a. verið sá að festa í sessi og reyna að takmarka umræður utan dagskrár og umræður um störf Alþingis og ég hygg að þessar breytingar hafi í stórum dráttum gefist vel.

Ég tek undir það sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði áðan, að auðvitað eru það umræður um störf þingsins þegar almennt er talað um þjóðmál því að það eru líka umræður um störf þingsins að vekja athygli á því ef þinginu hefur láðst að taka mál á dagskrá eða mál til meðferðar og það er a.m.k. hluti af hlutverki stjórnarandstöðu að fylgjast með því að ríkisstjórnina hendi ekki slíkt. Ég álít því að sú umræða sem hér fór fram sé fyllilega innan þess ramma sem við höfum verið að tala um.

Ég vil láta í ljósi ánægju yfir því hversu vel hv. alþm. hafa tekið í þann hátt sem nú hefur verið tekinn upp. Aðalatriðið í þingsköpum Alþingis er auðvitað ekki hvernig þau voru upphaflega hugsuð eða hvernig kannski megi mjög þröngt túlka orðalag í þingsköpum heldur hvernig þingstörfin venjast og hvaða venjur skapast á Alþingi í góðum vinnubrögðum og góðri reglu. Ég hygg að við eigum að fylgja því.

Hitt getur auðvitað verið erfitt fyrir forseta á stundum, þ.e. að fylgja því eftir eins og hv. 18. þm. Reykv. sagði áðan, að menn fari ekki út fyrir efnið. Ég vil t.d. spyrja hæstv. forseta að því hvað hann mundi segja ef ég tæki nú að lesa upp konunglega tilskipan um stofnun barnaskóla á Eyrarbakka.

(Forseti (ÍGP): Forseti mundi þá stoppa hv. 1. þm. Norðurl. e. af um leið.)