Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:32:47 (6370)

2002-03-21 11:32:47# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:32]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er í öllu falli ekkert óeðlilegt við það heldur þó að rætt sé um stöðu þessa máls þegar gjörbreyttar, pólitískar og jafnvel efnislegar aðstæður hafa komið upp og ég held að menn hljóti að reka minni til þess einhvern tíma, þá sem hér hafa setið á þingi um einhver ár að slíkt er alsiða að þegar upp kemur breytt, pólitísk eða efnisleg staða í máli, þá er það tilefni til umræðna um áframhaldandi meðhöndlun og meðferð þess. Þau eru býsna mörg málin sem hafa verið kistulögð, slegin af í miðjum klíðum af því að upp hafa komið breyttar aðstæður í þjóðfélaginu eða menn hér innan þings hafa komist að því að ekki væri allt með felldu, ekki væri allt sem skyldi í viðkomandi málum.

Herra forseti. Það skiptir að sjálfsögðu ekki máli hvar mál er á vegi statt, hvort það er á prentaðri dagskrá eða hefur verið tekið fyrir. Þingmenn hafa samkvæmt þingsköpum rétt til þess að kveðja sér hljóðs hvenær sem er og gera athugasemdir við fundarstjórn tvisvar í senn um hvert efni ef ég man rétt. Menn hafa rétt til þess að óska eftir því að máli sé frestað. Menn hafa rétt til þess að óska eftir því að gert sé fundarhlé o.s.frv. Þetta er alsiða og þetta eiga menn að þekkja og sérstaklega eiga formenn þingflokka að muna eftir þessu og vita að ekkert er óeðlilegt við að menn nýti rétt sinn til þess að koma á framfæri athugasemdum við fundarstjórn þegar svona háttar til. Og minni manna er orðið svikult og lítið ef þeir muna það ekki, þeir sem setið hafa hér lengi.

Auk þess verð ég, herra forseti, að gera athugasemdir við það að t.d. formaður þingflokks Sjálfstfl. skuli endalaust koma í ræðustólinn þeirra erinda einna að reyna að taka völdin af forseta, í raun og veru vanda um við forseta fyrir að þagga ekki niður í mönnum. Ég þakka forseta að sjálfsögðu fyrir að hann gengur ekki á rétt okkar þingmanna sem hér höfum borið fram óskir um að þetta mál komi ekki á dagskrá. Tveir þingflokkar hafa sett fram þá ósk. Formaður Frjálslynda flokksins var í ræðustóli áðan og það höfum við einnig gert, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þessi ósk, herra forseti, er rökstudd. Hún er efnisleg. Það sjá allir þó að þeir vilji ekki viðurkenna það. Það er bara þvergirðingsháttur að viðurkenna ekki að í ljósi tíðinda vikunnar, yfirlýsingar ráðherra sjálfs, frétta í fjölmiðlum, blaðaviðtala við aðstoðarmann ráðherra o.s.frv. eru fullgild efni til þess að fara fram á að ekki verði hreyft frekar við málinu fyrr en a.m.k. hin nýja yfirlýsing liggur fyrir. Menn tala því gegn betri vitund sem setja sig á háan hest gagnvart þeim óskum um að málið verði ekki tekið fyrir.