Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:23:24 (6376)

2002-03-21 12:23:24# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi eru þeir þrír ágætu heiðursmenn sem hv. þm. nefndi alls góðs maklegir. Stendur síst á þeim sem hér talar og þekkir þá ágætlega að taka undir það.

Auðvitað er það svo að beislun orkunnar er eitt af fjölmörgum mikilvægum framfaramálum þjóðarinnar og hefur lengi verið. Rafvæðing landsins var hluti af uppbyggingu þessa þjóðfélags --- en aðeins einn þáttur. Þar er skynsamleg náttúruvernd líka, og skynsamleg umgengni um auðlindir lands og sjávar er ekki síður mikilvæg en iðnaðar- og stóriðjuþráhyggjan sem sumir menn eru svo helteknir af að þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum.

Varðandi Búrfellsvirkjun hefur alltaf verið vitað að sú virkjun er einn hagkvæmasti virkjunarkostur landsins. En verðið sem borgað var fyrir orkuna frá henni var fyrstu árin svo lágt að um það deilir enginn lengur að borgað var með því af almenna notendamarkaðnum. Ég dró það hér fram. En Búrfellsvirkjun er gott fyrirtæki og það er álverið í Straumsvík að sjálfsögðu líka sem vinnustaður en þetta mál snýst ekki um það.