Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:33:12 (6382)

2002-03-21 12:33:12# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:33]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í rauninni er tilefni til að gera mjög margar athugasemdir við ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem hann flutti sem framsöguræðu fyrir meirihlutaáliti iðnn. í málinu. Þar var talsvert um rangfærslur að mínu mati og hv. þm. verður auðvitað að hafa það í huga að þegar óvissa er um hluti þá getur maður ekki fullyrt á þeim nótum sem hv. þm. leyfði sér að gera í ræðu sinni. Í því sambandi vil ég nefna varðandi þá þætti sem hv. þm. nefndi, í sambandi við álverð og arðsemi verkefnisins væntanlega, að álverð er í dag í sögulegu lágmarki. Það er staðreynd.

Hitt er líka staðreynd að framleiðslusamdráttur er í heiminum á áli. Þriðja staðreyndin er sú að ákveðið samrunaferli er í gangi hjá álverksmiðjum sem gerir það að verkum að mun fýsilegra virðist vera fyrir stóra álframleiðendur að stækka framleiðslueiningar og auka þannig framleiðslu sína heldur en fara út í að reisa ný álver vegna þess að ný álver eru mun dýrari kostur en hitt.

Þessar þrjár athugasemdir læt ég nægja að nefna varðandi stöðu álverðs og álframleiðslunnar í heiminum en hitt vil ég gera að aðalatriði sem hv. þm. ræddi, um möguleg útivistarsvæði á einhverjum ósnortnum víðernum norðan Vatnajökuls þegar búið væri að reisa virkjunina. Hvað gerði hv. iðnn. í að kynna sér mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir útivist og náttúruvernd og hversu vel fór hv. iðnn. yfir álit Þjóðhagsstofnunar á efnahagslegum þáttum varðandi mögulega stofnun þjóðgarðs án virkjunar á svæðinu?