Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 12:40:18 (6386)

2002-03-21 12:40:18# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[12:40]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Vegna söguskýringa hv. þm. Hjálmars Árnasonar í ræðu sinni þegar hann talaði fyrir meiri hluta iðnn. þá tel ég mig neyddan til þess áður en ég fer í efnislega umræðu um minnihlutaálit mitt að fara örfáum orðum um mál hans þar að lútandi. Einkennileg söguskýring, einkennileg sýn á þróun íslensks samfélags síðustu 100 árin sem ekki er hægt að láta hjá líða að fara nokkrum orðum um áður en fjallað er efnislega um þetta minnihlutaálit sem ég ber fram vegna þess að að mínu mati er það fáránleg skýring sem gefin er sem rök fyrir því að halda áfram stóriðjustefnu og stórvirkjanastefnu í landinu.

Ég vil líka að það komi fram strax vegna ummæla hv. 17. þm. Reykv., Kolbrúnar Halldórsdóttur, um að Landsvirkjun hefði ekki lækkað orkuverð, að fram kom á iðnaðarnefndarfundi að orkuverð hefur ekki lækkað í krónutölu heldur hafa menn miðað við vísitölu og reiknað þar inn til lækkunar þannig að krónutölulækkun hefur ekki átt sér stað.

Vegna söguskýringa hv. þm. Hjálmars Árnasonar þar sem hann fór yfir það að Ísland hafi verið fátækasta land í Evrópu um aldamót, þá mælum við ekki á móti því. En er ekki nauðsynlegt fyrir okkur í þessu samhengi öllu að fara yfir söguna og fara örlítið lengra aftur í tímann?

Þjóðin bjó við stjórnarfar sem var konungleg einokun frá 1662 sem girti fyrir allar framfarir í landinu að lágmarki í 150 ár. Nú getum við talað um það varðandi okkar sýn í samvinnu- og alþjóðamálum hvernig við stillum upp fyrirtækjum okkar og hvernig við viljum reka samfélag okkar. En það er nú þannig, virðulegi forseti, að við erum kannski á hættubraut hvað þetta allt saman varðar í dag þar sem við erum með öðrum tólum og tækjum en tækjum konungsins og herjum hans að færa valdið yfir því sem okkur er nauðsynlegt að ráða yfir, þ.e. samfélagsmunstrinu okkar, yfir til einkaaðila, örfárra aðila með öðrum tækjum og tólum sem mun að mínu mati leiða til ófarnaðar til lengri tíma litið fyrir samfélag okkar. Þar á ég við einkavæðingu og þar á ég við tilhneiginguna til þess að halla sér sífellt meira á öxl útlendinga og treysta þeim fyrir atvinnuuppbyggingu í landi okkar.

Það er alveg rétt að upp úr aldamótunum 1900 fórum við að leggja aukna áherslu á menntun í landinu. Ég tel að þessi aðkoma sé algerlega nauðsynleg vegna þess að hv. formaður iðnn. lagði slíka áherslu á þessa söguskýringu að ekki verður undan vikist. Efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar var alger forsenda þeirra lýsinga sem hv. formaður iðnn. byggði á eftir 1900, á síðustu 100 árum. En á hverju grundvölluðust þessar efnahagslegu framfarir? Grundvölluðust þær ekki á pólitískum skrefum sem voru tekin til að gera okkur mögulegt að ráða eigin ráðum á öllum póstum? Þurfum við ekki að taka söguna og þau skref sem voru tekin 1853, síðan 1874, sjálfstæðisþrepin 1903 og síðan 1918? Í íslensku efnahagslífi fram að aldamótunum 1900 er einokunarkerfi Dana sem komu sér því upp í krafti þess að hér var einokun frá 1662.

Þau tól sem Íslendingar notuðu til þess að koma sér út úr þessari vitleysu og komast til álna sem gekk hratt eftir að menn voru búnir að skjóta rótum, það er engum vafa undirorpið að þau stóru skref voru tekin eftir skref í átt til sjálfstæðis 1874 og síðan í framhaldi af því samtakamáttur Íslendinga sem fólst í því að stofna kaupfélögin, fyrst 1882 og Kaupfélag Eyfirðinga, mitt kaupfélag, 1886. Menn mega ekki gleyma þessum staðreyndum mála vegna þess að ef mig minnir rétt, þá fer síðasti danski kaupmaðurinn frá Akureyri 1939. Þetta er lykill að framförum okkar sem hv. formaður iðnn. lýsti svo fjálglega að væri á grunni rafmagnsframleiðslu einvörðungu frá aldamótunum 1900. Þetta er algerlega röng söguskýring.

[12:45]

Auðvitað tókum við að mennta þjóðina. Við tókum atvinnutæki okkar í eigin hendur í ríkari mæli og tókum verslunina í okkar hendur. Í framhaldi af því, og ekki skal gera lítið úr því, hefjum við rafmagnsframleiðslu til að bæta okkar hag eftir aldamótin. Þetta vita allir Íslendingar og gera sér grein fyrir því. En guð forði okkur frá því að skrifa það allt á eitt atriði. Auðvitað skýrast framfarirnar að langmestu leyti af breyttu pólitísku landslagi, sjálfsákvörðunarrétti og möguleikum á þeim grunni til nýrrar framfarasóknar. Það er ekkert vafamál. Þar koma til orkumálin og að sjálfsögu menntamálin einnig. Þróun í veiðum og vinnslu og iðnaðaruppbygging af öllu tagi á þar sinn þátt. Ég bið hv. þm., virðulegi forseti, að taka þessa hluti í því samhengi sem sanngjarnt er en draga ekki eitt mál út úr líkt og hv. formaður iðnn. leyfði sér að hafa sem meginröksemdafærslu í málflutningi sínum áðan. Það var að mínu mati fáránlegt.

Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar kemur í skrefum vegna þess að við förum að stjórna málum sjálf. Eins og ég sagði áðan þá kom það með þessum skrefum, 1874, 1903, 1918 og síðan lýðveldisstofnun 1944. Það kunna allir Íslendingar þessa sögu, hafa velt henni fyrir sér og gera sér grein fyrir þeim þrepum sem tekin voru.

Í málflutningi hv. þm. Hjálmars Árnasonar mærði hann mjög Búrfellsvirkjun. Það er alveg rétt að uppbygging hennar var framfaraspor á sínum tíma. En verður ekki einnig að setja þau mál í sögulegt samhengi úr því að menn beita söguskýringu til að varpa ljósi á þessi mál? Verður ekki að setja þau líka í sögulegt samhengi?

Síldin hvarf að mestu leyti 1966. Þjóðarframleiðsla okkar hrundi gersamlega og 1967 var nánast ekkert veitt og fólksflótti úr landinu, hrun í þjóðarframleiðslunni. Menn verða að átta sig á því í þessu samhengi að það er ekki bara uppbygging í Búrfelli og stóriðja sem þá er tekin ákvörðun um. Ríkisstjórn Íslands fór yfir sviðið á þeim tíma. Það voru gerð víðtæk plön um uppbyggingu í landinu, m.a. um úrvinnslu landafurða sem leiddi af sér gríðarlega uppbyggingu í iðnaði á Akureyri, ullariðnaði, skinnaiðnaði, fataiðnaði o.s.frv. Þetta voru viðbrögð við því að síldin hrundi. Að setja það í samhengi við framkvæmdir við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, með öllu því sem tilheyrir, er alls ekki samanburðarhæft.

Menn verða líka að átta sig á því þegar sagan er skoðuð að ef eitt er ekki gert þá gera menn væntanlega eitthvað annað, öðruvísi. Umræðan á hinu háa Alþingi snýst um hvernig menn eigi að fara í hlutina. Það er hlutverk okkar hér, að takast á um það og safna liði til framkvæmda og móta samfélagið eftir því munstri sem við teljum henta best. Þannig eru leikreglurnar. Það er fáránlegt, virðulegi forseti, að standa frammi fyrir því að sýknt og heilagt komi fram lágkúruleg gagnrýni á málflutning þeirra sem vilja fara öðruvísi að í atvinnuuppbyggingu heldur en þeirra sem meirihlutavaldið hafa á hverjum tíma. Þetta er eiginlega stórhættuleg staða fyrir lýðræðissamfélag, stórhættuleg staða sem e.t.v. skapast af því að hæstv. ríkisstjórn hefur mjög mikinn meiri hluta hér á þingi. Við gerum okkur grein fyrir því.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er ekki á móti byggingu virkjana. Við höfum t.d. ekki lagst gegn stækkun Nesjavallavirkjunar. Við höfum ekki lagst gegn því afgreidda máli að gerlegt sé að stækka Kröfluvirkjun um 40 megavött. Það er afgreitt mál og liggur fyrir.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er að kljást hér við meiri hlutann á þinginu um vinnubrögð við ákvarðanatöku og tregðu við að taka heildstæðar ákvarðanir. Ég sem þingmaður fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð get ekki sætt mig við málflutning af því tagi sem þráfaldlega kemur fram í þinginu, að gera lítið úr hugmyndum sem að mínu mati geta orðið til stórkostlegra framfara í þessu landi.

Hv. þm. Hjálmar Árnason kom, eins og framsóknarmönnum er tamt þegar þeir gagnrýna okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, enn eina ferðina inn á hundasúrur og fjallagrös sem menn hafa mjög mikið og gaman af og skemmta sér við fyrir austan. Við verðum að gera okkur grein fyrir því á hinu háa Alþingi að þó að við höfum um hundruð ára tínt fjallagrös og notað sem aukaafurð í matargerð okkar þá eru landafurðir heimsins, plöntur, undirstaða lyfjaiðnaðar og líftækni sem er einn öflugasti sprotinn í atvinnuuppbyggingu víða um heim. Ég skil það ekki, virðulegi forseti, hvernig menn á hinu háa Alþingi geta lagst niður á það plan að gera lítið úr möguleikunum sem felast í að nota landafurðir þessa lands. Ég skil það ekki, vitandi að lyfjaframleiðsla hefur núna síðustu árin verið einn stærsti vaxtarbroddurinn á Íslandi. Þar erum við með fyrirtæki sem eru núna að skila hundruðum millj. kr. í hagnað á hverju ári. Hvernig geta menn á hinu háa Alþingi, talandi um framfarir í stórum stíl, á stórum skala, byggingu Kárahnjúkavirkjunar, talað sig upp í hita um að þetta þurfi að gera til að stuðla að framförum í landinu og á sama tíma gert lítið úr landafurðum landsins? Þeir mundu kannski gera lítið úr gróðri sjávarins líka ef maður leyfði sér að nefna þaraþöngla eða eitthvað þess háttar. Hvernig geta menn leyft sér að setja sig í þá stöðu?

Það er algerlega óásættanlegt að sitja undir slíku og sagan mun sýna það og opna augu manna fyrir því, þó það verði eftir 10 ár, 15 eða jafnvel 20, að svona raddir löttu menn í atvinnuuppbyggingu á grunni þeirra afurða sem landið gefur. Það er augljóst. Bygging Kárahnjúkavirkjunar og afgreiðsla á rafmagni til stóriðju byggir á aðkeyptum aðföngum annars staðar að úr heiminum bara svo ég haldi því til haga.

Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að fara í þessa söguskýringu vegna áherslunnar sem hv. formaður iðnn. lagði á þetta mál. Hann lagði mikla áherslu á þetta mál. Ég vil, þrátt fyrir mikilvægi rafmagnsframleiðslunnar í landinu, að menn geri sér grein fyrir sögunni eins og hún var. Ég var kominn að því atriði þegar síldin hvarf 1967 og ríkisstjórn Íslands ákvað að hefja atvinnuuppbyggingu í landinu. Það er alveg rétt að þar var Búrfellsvirkjun inni í dæminu og síðan uppbygging í Straumsvík. Það var gert. Við töpuðum gríðarlega á Búrfellsvirkjun fyrstu árin vegna þess að við stóðum ekki rétt að samningum og eins og fram hefur komið gafst færi á að semja upp á nýtt við fyrirtækið þegar það var staðið að svikum, hækkun á aðföngum í hafi eins og menn sem eru komnir á besta skeið muna. Það náttúrlega gjörbreytti aðstöðunni. Þetta vitum við öll. Við vitum að síðan þetta gerðist --- þetta var í tíð hæstv. fyrrv. iðnrh., Hjörleifs Guttormssonar --- með endursamningum við Straumsvík var rekstur virkjunarinnar skaplegur og fór að mala gull. Það er alveg rétt og því skal haldið til haga. En að halda það að þetta eitt og sér hafi fleytt málum fram, eins og skilja mátti af málatilbúnaði hv. þm. Hjálmars Árnasonar, það er algjör blinda. Þar er fókusinn ekki á staðreyndum.

Hvað gerðist með útfærslu landhelginnar? Auðvitað var útfærsla landhelginnar sú vítaminsprauta sem gerði það að verkum að sjávarbyggðir í kringum landið fóru að blómstra. Þessu verður að halda til haga. Gríðarleg verðmætaaukning varð í sölu á sjávarfangi til útlanda. Hv. þm. vita að sjávarútvegurinn stendur enn undir og mun standa undir megninu af gjaldeyrisframleiðslu okkar í landinu. Síðan má ekki gleyma því að til hliðar og með gríðarlegri framþróun í sjávarútveginum á 8. og 9. áratugnum höfum við gert gríðarlegt strandhögg hvað varðar ferðaþjónustuna. Án mikilla og stórra átaka er ferðaþjónustan orðin okkar önnur stærsta atvinnugrein. En fyrir þá sem vilja byggja eina verksmiðju og eina virkjun er óþægilegra að fjalla um þau mál. Það er erfiðara að eigna sér þau vegna þess að þar er ekki talið upp úr einum kassa, gróðinn af ferðaþjónustunni, hann dreifist vítt og breitt um landið. En við megum ekki gera lítið úr þessu. Það eru fyrst og fremst þessir samverkandi þættir sem ég hef talið upp í inngangi sem hafa orðið til að skapa þá velsæld sem við byggjum á hér á Íslandi.

Í umræðunni á hinu háa Alþingi --- ég vil koma því að sem söguskýringu --- tala menn oft og tíðum niðrandi um ferðaþjónustuna og segja að ferðaþjónustan byggist á að skipta um rúm og þar séu láglaunastörf. Ég hef oft furðað mig á þessari hagfræði. Ég veit ekki betur en ferðaþjónustan byggi á öllum mögulegum atvinnugreinum sem henni þjóna, hvort sem það eru flugstjórar, flugvirkjar, forstjórar ferðaskrifstofa, rútubílstjórar, eigendur almenningsvagna og svo mætti áfram telja. Menn eru ansi þröngsýnir þegar þeir tala um þessa grein og gera oft og tíðum lítið úr henni með því að einhenda sér yfir þjónustuþátt þeirra sem illu heilli hafa ekki nóg góð laun í ferðaþjónustunni. Þetta er afleit skýring á málunum og verður að halda þessu til haga við þessa umræðu.

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þm. hvort vel standi á hjá honum til að gera hlé á ræðu sinni nú þar sem áætlað hafði verið að hafa matarhlé milli 1 og 1.30 eða hvort hann eigi skammt eftir af ræðu sinni.)

Ég er rétt að hefja ræðu mína, virðulegi forseti, og mun þiggja að gera hlé á ræðu minni.