Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:30:59 (6387)

2002-03-21 13:30:59# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þegar Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í öryrkjamálinu svokallaða í árslok árið 2000 fól ríkisstjórnin sérstökum starfshópi að fara yfir dóminn og setja fram tillögur um hvernig við honum skyldi brugðist af hálfu stjórnvalda, m.a. með lagafrv. Verkefni starfshópsins voru reifuð í erindisbréfi sem hann fékk í hendur ásamt sérstöku minnisblaði sem starfshópurinn síðan vísaði til í skýrslu sinni. Lögmaður Öryrkjabandalagsins óskaði eftir þessu minnisblaði en var meinað um það og ákvað þá að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingalög og síðan til dómstóla. Dómur Hæstaréttar er nú fallinn Öryrkjabandalaginu í vil og ríkissjóður dæmdur til að greiða málskostnað. Í dóminum er vísað í upplýsingalög, mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um opna stjórnsýslu og aðgang almennings að gögnum stjórnsýslunnar.

Á grundvelli þessara tilvísana í mannréttindaákvæði og skyldur um opna stjórnsýslu vinnur Öryrkjabandalagið nú þennan mikilvæga áfangasigur. Er það fagnaðarefni og að mínu mati ákveðið heilbrigðisvottorð fyrir dómskerfið að dómurinn skyldi falla á þennan veg. Að sama skapi er áhyggjuefni hvernig komið er fyrir handhafa framkvæmdarvaldsins og vissulega einnig fyrir Alþingi Íslendinga og ýmsum aðilum innan stjórnsýslunnar sem eiga að standa vörð um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Vísa ég þar sérstaklega í úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem starfar á grundvelli 5. kafla upplýsingalaganna því hún hafði tekið undir með hæstv. forsrh. og hafnað því að lögmaður Öryrkjabandalagsins fengi umrætt minnisblað í hendur.

Hlutur úrskurðarnefndar er kafli út af fyrir sig þótt ekki sé við þessa stuttu umræðu utan dagskrár tóm til að fjalla sérstaklega um þann þátt málsins. En ég vil víkja örfáum orðum að hlut Alþingis.

Þegar þetta mál brann hér heitast á þinginu fór stjórnarandstaðan fram á að þessi gögn yrðu færð fram í dagsljósið og fóru formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar m.a. fram á það með skírskotun til 54. gr. stjórnarskrárinnar að minnisblaðið yrði birt. Þessi stjórnarskrárvarði réttur Alþingis er ríkari en réttur upplýsingalaganna og einnig óháður upplýsingalögunum, og er það m.a. staðfest í riti sem gefið var út á vegum forsrn. árið 1999 þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Réttur alþingismanna til aðgangs að upplýsingum um opinber málefni ræðst ekki af upplýsingalögum heldur byggist hann á sjálfstæðri heimild sem er að finna í 54. gr. stjórnarskrárinnar.``

Herra forseti. Hvorki á grundvelli þessarar stjórnarskrárvörðu heimildar þingsins til upplýsinga né á grundvelli upplýsingalaga vildi hæstv. forsrh. upplýsa Alþingi um málið. Og nú, þegar Hæstiréttur Íslands kveður upp þann dóm að hann hafi farið þar með rangt mál, er ástæða til að staldra við og spyrja hæstv. forsrh. hvaða lærdóm hann ætli að draga af þessu máli. Það væri ekki verra ef samstarfsmenn hæstv. forsrh. á Alþingi leiddu einnig hugann að þessari spurningu.

Eflaust hugsuðu margir sitt þegar þeir hlýddu á sjónvarpsfréttir fyrir helgina þar sem rætt var við einn nefndarmanna í umræddri nefnd, reyndar formann nefndarinnar, Jón Steinar Gunnlaugsson. Hann sagði þar m.a., með leyfi forseta:

,,Það er auðvitað þýðingarmikið að menn lesi bara þetta minnisblað og viti þá frá hverjum það er og til hvers og taki bara afstöðu sjálfir til þess. Það er augljóst.``

Já, herra forseti, það er augljóst. Um það snerist þetta mál og snýst enn, að fá sjálfsagðan aðgang að upplýsingum til að geta tekið upplýsta afstöðu.