Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:50:45 (6394)

2002-03-21 13:50:45# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er sannarlega ástæða til þess að fagna þeim hæstaréttardómi sem nú liggur fyrir vegna þess að á grundvelli hans ætti að vera tryggt að upplýsingalögin séu það tæki sem upphaflega var gert ráð fyrir. Upplýsingalög eru liður í þeirri viðleitni stjórnvalda á Vesturlöndum að koma í veg fyrir pukur og leynimakk stjórnvalda. Upplýsingalögin eiga að koma í veg fyrir mögulega misbeitingu valds stjórnvalda og upplýsingalögin eiga þannig að vera í þökk jafnt þegnanna sem stjórnvalda.

Herra forseti. Svo virðist ekki vera á Íslandi því hæstv. ríkisstjórn hefur allt á hornum sér þegar upplýsingalögin virðast virka á þann hátt sem hugmyndafræðin sem að baki þeim liggur gerði ráð fyrir.

Í þeim dómi sem hér um ræðir er vitnað í upplýsingalögin og í mannréttindaákvæði. Ef það er ekki skylda og hlutverk ríkisstjórnar Íslands að standa af alefli vörð um mannréttindi, á hvaða vegi erum við þá stödd? Ríkisstjórnin getur auðvitað ekki varið það að mannréttindi skuli fótum troðin eða rangtúlkuð. Þó hæstv. forsrh. segi að forsendur í dómnum séu óljósar og mótsagnakenndar og að stundum sé rangt farið með staðreyndir, eins og hann sagði í ræðu sinni áðan, herra forseti, þá dæma slík ummæli sig að sjálfsögðu sjálf. Dómurinn er sigur fyrir lýðræðið. Hann er sigur þeirra sem vilja í alvöru opna stjórnsýslu og vilja að réttlæti og sanngirni ráði í þessu landi og að stjórnsýslan hafi eðlilegt aðhald.