Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:30:31 (6399)

2002-03-21 14:30:31# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Efnisinnihald ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar þurfti ekki að koma mikið á óvart, og ég ætla svo sem ekki að eyða orðum á það nema að auðvitað hefur þingflokkur Vinstri grænna verið á móti málinu og í hans löngu ræðu kemur fram að svo er enn og mun væntanlega ekki breytast. Reyndar kom það fram hjá honum að hann væri á móti stækkun Kröfluvirkjunar af því að hún mundi ganga á göngustíga og að ferðaþjónusta ætti þá undir högg að sækja í Mývatnssveit. Síðan talaði hann hins vegar um að rétt væri að nýta þá orku fyrir norðan og það er í sjálfu sér gott og gilt sjónarmið. En ég vildi mótmæla því sem hann sagði um ferðaþjónustu. Af orðum hans mátti skilja að þeir sem styddu virkjunaráform við Kárahnjúka töluðu niðrandi um ferðaþjónustu, og hann sagði að við töluðum um ferðaþjónustu í því ljósi að þar væri eingöngu fjallað um að skipta um á rúmum.

Ég mótmæli þessum málflutningi þingmannsins og vil draga það fram að auðvitað skiptir ferðaþjónusta gífurlega miklu máli á Austurlandi, og Austfirðingar hafa verið að efla sig í ferðaþjónustu. En það er jafnljóst að þetta verkefni, þegar að því kemur, mun styrkja ferðaþjónustuna eins og hún hefur verið að byggjast upp.