Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:34:26 (6401)

2002-03-21 14:34:26# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í svari hv. þm. kom ekki fram afstaða hans til ferðamála og hvort það er skoðun hans að við sem styðjum virkjun séum á móti ferðaþjónustu. Þau sjónarmið koma ítrekað fram hjá vinstri grænum að ekki sé hægt að stunda þessar atvinnugreinar saman.

Auðlindir okkar Austfirðinga liggja í því að við eigum óvirkjuð jökulvötn, mikið af víðernum og mörg tækifæri í ferðaþjónustu. Og auðvitað viljum við nýta þessi tækifæri. Við Austfirðingar erum mjög áfram um það og margir hafa lagt mikið á sig til þess að geta stundað ferðaþjónustu.

En það er jafnljóst að erfiðleikar í ferðaþjónustu verða áfram ef ekki er hægt að lengja ferðamannatímabilið. Og það er líka jafnljóst að það umfang á þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru varðandi virkjunina og byggingu álvers í Reyðarfirði mun auðvitað styrkja ferðaþjónustuna mjög verulega því að fjöldi fólks verður á ferðinni á Austurlandi utan hins venjulega ferðamannatíma og mun þurfa að nýta þær stofnframkvæmdir og þá grunnþjónustu sem til er í ferðaþjónustunni. Og við hljótum að geta fagnað því saman, ég og hv. þm., að þessar framkvæmdir verði þannig til þess að styrkja ferðaþjónustuna ef menn ætla yfir höfuð að lifa af henni.