Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 14:56:14 (6415)

2002-03-21 14:56:14# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, BH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Bryndís Hlöðversdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að hæstv. ráðherrar eigi að vera viðstaddir umræðu um stórmál sem tilheyra málaflokki þeirra og hefði talið æskilegast að hæstv. ráðherra hefði getað verið viðstödd þessa umræðu.

Ég vil þó segja að ég veit að hæstv. ráðherrann talaði við þá hv. þm. Samfylkingarinnar sem munu tala hér á næstu klukkustundunum og fékk jákvæð viðbrögð þeirra við því að hún mundi bregða sér af bæ. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég held að það sé kannski mikilvægast að standi þeim þingmönnum sem hér munu tala næstu klukkutímana nokk á sama þótt hæstv. ráðherrann fari þá skipti fjarvera hennar ekki svo miklu máli. Til svara fyrir hv. iðnn. verður hér vonandi áfram hv. þm. Hjálmar Árnason. Málið er jú á forræði nefndarinnar og er að koma frá nefndinni.

Að öðru leyti vil ég taka undir að almennt eigi það að vera þannig, herra forseti, að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir stórmál af þessu tagi. Ég tel það mjög æskilegt og vona að hæstv. forseti taki vel í það hér eftir að við slíkum kröfum sé almennt orðið, að kalla til hæstv. ráðherra þegar stórmál eru til umræðu í þinginu.