Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:13:15 (6419)

2002-03-21 16:13:15# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að láta í ljósi vonbrigði mín með lendingu hv. þingmanna Samfylkingarinnar í þessu máli og lýsa því yfir að út frá ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur sýnist mér fullt tilefni til, ef á allar röksemdirnar er litið, að hv. þingmenn hefðu lagst gegn málinu eða í öllu falli ákveðið að styðja það ekki þar sem ljóst er að í grundvallaratriðum gengur málið gegn yfirlýstri sannfæringu hv. þingmanna, t.d. það er lýtur að auðlindapólitíkinni og sömuleiðis, að því er virðist, það er varðar náttúruverndina. Það er alveg ljóst og liggur fyrir í gögnum sem ég geri ráð fyrir að hafi verið farið ítarlega yfir í hv. iðnn. að mat á gildi lands fyrir norðan Vatnajökul með tilliti til útivistar og þjóðgarðs leiðir í ljós að gildi landsins fellur gífurlega mikið við tilkomu væntanlegrar Kárahnjúkavirkjunar. Ég sé því ekki samhengi hlutanna nægilega rétt þar sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir kaus í ræðu sinni að tala í viðtengingarhætti og sagði að ef við hefðum önnur lög og aðra mælikvarða, t.d. hvað varðar auðlindalöggjöf og mat á verðgildi lands --- og fleira sem hún nefndi í ræðu sinni --- væri veruleikinn annar, en Samfylkingin væri sátt við hlutina út frá þeim veruleika sem við búum við núna. Með þeim rökum, herra forseti, mætti segja að Samfylkingin hefði átt að sætta sig við og styðja stjórnvöld í viðleitni þeirra til að reisa Fljótsdalsvirkjun á sínum tíma. Í því máli kaus Samfylkingin hins vegar ekki að búa við veruleikann sem fólst í þágildandi lögum heldur var sammála um að krefjast þess að virkjunin færi í mat á umhverfisáhrifum svo ég skil ekki hvað hefur breyst hjá Samfylkingunni.