Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:17:51 (6421)

2002-03-21 16:17:51# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:17]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lýsir því að þingmenn Samfylkingarinnar hafi í ljósi gildandi laga, í raun og veru vegna skorts á lögum og pólitík, nánast verið þvingaðir til að styðja málið. Ég lýsi enn yfir vonbrigðum mínum með að Samfylkingin skuli ekki hafa ákveðið að halda öðruvísi á málum og þá í öllu falli sitja hjá eða vera hlutlausari en raun ber vitni. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að ég er hjartanlega sammála orðum hv. þm. varðandi vöntun á auðlindapólitík en ég minni á að við höfum rök og hald í alþjóðlegum samningum og sáttmálum sem við höfum undirritað.

Ég tel, herra forseti, að það komi til með að verða prófað fyrir íslenskum dómstólum innan skamms að við höfum í alþjóðlegum sáttmálum efni til að koma þessu mál frá, t.d. á grundvelli varúðarreglunnar og á grundvelli þeirrar skyldu sem á herðar okkar er lögð með samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika. Ég tel líka að óljóst sé hvort aðrar samþykktir, t.d. tilskipun ESB sem lögin um mat á umhverfisáhrifum byggja á, heimili það sem hæstv. umhvrh. gerði, að taka málið aftur inn á sitt borð og framlengja umhverfismatsferlið. Ég tel að Samfylkingunni hefði verið fyllilega stætt á að sitja hjá í málinu eða vera á móti því ef það stríðir í grundvallaratriðum gegn sannfæringu þeirra þingmanna sem tjáð hafa sig um þetta mál.