Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:19:52 (6422)

2002-03-21 16:19:52# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:19]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu dýrmætt fyrir okkur í Samfylkingunni að heyra hvað hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur finnst að við hefðum átt að gera. Veruleikinn er bara annar.

Niðurstaða okkar, eftir að hafa skoðað málið, þau gögn sem fyrir lágu og í rauninni fengið svör við þeim spurningum sem við spurðum og vegið þetta saman, var að styðja málið. Það gerum við þrátt fyrir vöntun á auðlindapólitík. Það höfum við þurft að gera í svo ótal mörgum málum sem lúta að auðlindanýtingu, því miður.

Við höfum stutt mál sem hér hafa verið flutt og við höfum talið að væru til framfara þó að við höfum saknað þess að hægt væri að styðjast við almenna auðlindapólitík. Ég vænti þess hins vegar að á því verði breytingar. Ég vænti þess að þeir vísar að auðlindapólitík sem við sjáum kræla á í einstöku frv. frá hæstv. ríkisstjórn nái á endanum að mynda það sem við erum að kalla eftir þannig að við getum haft þá mælikvarða sem við söknum þegar við erum að vinna með mál sem þessi. Hins vegar var það mat okkar, fulltrúa Samfylkingarinnar í iðnn., að styðja þetta mál. Það gerðum við eftir að vera búin að skoða það út frá ýmsum forsendum. Ég rakti áðan þjóðhagslegu forsendurnar. Ég rakti aukinn útflutning, auknar þjóðartekjur og annað sem getur skipt máli varðandi lífskjör þjóðarinnar í framtíðinni. Ég talaði ekki um byggðamálin. Ég gerði ráð fyrir að aðrir mundu koma og gera það. Það skiptir líka máli. Þannig eru ýmis rök sem við höfðum fyrir þeirri niðurstöðu. Ég veit ekki hvort hv. þm. saknaði þeirra raka úr ræðu minni. Þau voru kannski fremur í fyrri hluta ræðunnar en þeim síðari, alla vega töldum við okkur hafa full rök fyrir þeirri niðurstöðu sem við náðum. Ella hefði hún orðið önnur.