Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:51:36 (6431)

2002-03-21 16:51:36# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við erum með kaupanda. Við erum með samning við Norsk Hydro sem á að skrifa undir fyrir 1. sept. Norsk Hydro hefur sagt að hugsanlega kunni að þurfa að fresta þeirri dagsetningu, ekki vegna arðseminnar heldur vegna þess að þeir hafa ekki peninga til að fara út í framkvæmdina. Sú er ástæðan. Þeir eru bara blankir og því er þetta ekki spurning um arðsemina.

Vegna þess hve lengi við höfum talað við Norsk Hydro hefur ekki verið talað við aðra. Það er venjan í svona viðskiptum. Þegar menn tala við einn aðila lofa þeir að tala ekki við aðra. Það gildir um Norsk Hydro líka. Því hefur ekki reynt á að aðrir komi en margir hafa meldað sig og þeir verða væntanlega kallaðir til ef Norsk Hydro stendur ekki við sinn hlut.

Ég sé því enga ástæðu fyrir því að svona arðbær framkvæmd geti ekki farið í gang. Ég hugsa að fleiri frekar en færri komi aðvífandi ef Norsk Hydro bakkar út úr þessu og getur ekki staðið við dagsetninguna 1. sept. vegna þess að þeir eru búnir að fjárfesta of mikið í Þýskalandi. (ÖJ: Hverjir?) --- Norðurál.