Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:58:21 (6435)

2002-03-21 16:58:21# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um að þetta væri þá málefni þeirra sveita sem eru nálægt lóninu. Það er eiginlega enginn nálægt þessu lóni. Þetta er lengst inni á öræfum. Það sem mun gerast er að Landsvirkjun mun leggja vegi þarna um þannig að ferðamenn geta farið um þetta svæði sem þeir geta ekki í dag. Og þeir munu örugglega fara og skoða þessar virkjanir því að mannvirkin eru mjög merkileg. Og ferðamenn munu líka örugglega skoða virkjunarhúsið sem er mjög athyglisvert. Það eykur því á fjölbreytni í ferðamannaþjónustu að geta horft á ósnortin víðerni í eina áttina og á fallegan stíflugarð í hina áttina, og fallegt stöðuvatn.

Þetta mun því auka ferðaþjónustu í þeim sveitum enda eru menn þar komnir í gang með að nýta sér þau tækifæri sem bjóðast með því t.d. að búa til hringveg yfir Vatnajökul með þeim vegum sem verða byggðir í tengslum við virkjunina. Virkjunin hefur því mjög góð áhrif á ferðamannaþjónustu á þessum stað.

Hv. þm. getur reyndar ekki svarað en ég spurði hvort ætti bara að hætta við þetta alveg endanlega með þessari frávísunartillögu og gefa Austfirðingum það merki að þeir geti bara flutt í burt. Er meiningin hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að breyta Austfjörðum í ósnortin víðerni? (Gripið fram í: Þau verða náttúrlega ekki alveg ósnortin.)