Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:42:28 (6447)

2002-03-21 17:42:28# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:42]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að gild rök væru fyrir því að flytja þetta eldi allt saman til sjútvrn. Ég hefði svo sannarlega viljað taka þátt í því að skapa einhverjar reglur sem gerðu það að verkum. Hann sagði líka að engin pólitísk togstreita hefði verið um málið, en hefur samt þá skoðun sem ég nefndi áðan. Kom hann henni ekki á framfæri þá? Var þetta ekki rætt í ríkisstjórninni? Voru skynsamlegustu leiðirnar ekki ræddar þar? Af hverju koma menn með svona niðurstöðu og síðan kemur hæstv. ráðherra inn í Alþingi og lýsir því að skynsamlegasta leiðin hafi ekki einu sinni verið rædd í ríkisstjórninni? Mér finnst þetta hálfhallærislegt. Ég ætla ekki að segja meira.