Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:46:27 (6451)

2002-03-21 17:46:27# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:46]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh., af því að það er áhyggjuefni margra í þessu sambandi, um tilkostnaðardæmið og hversu erfitt kerfið verður. Auðvitað viljum við ekki standa að því að kerfið verði óþarflega þunglamalegt og þvælist fyrir mönnum.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki vissar áhyggjur af því eins og margir hafa, sem er ekkert óeðlilegt að komi upp þegar um tvískiptingu er að ræða og menn þurfa að ganga á milli margra varðandi eftirlit, leyfisveitingar og annað, hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag muni leiða til þess að þetta verði erfiðara fyrir þá sem í greininni starfa. Og það sem er kannski umfram allt áhyggjuefni er að þetta verði þar af leiðandi mun dýrara fyrir greinina.