Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:52:27 (6456)

2002-03-21 17:52:27# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:52]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þetta mál sem við ræðum hér í dag er svo sem í ágætu samræmi við það mál sem hæstv. forseti kaus að taka tímabundið af dagskrá, þ.e. við erum að ræða um mál sem að hluta til fjallar um nýtingu auðlinda Íslands. Nýtingu auðlinda Íslands að því leytinu til að til þess að hægt sé að fara í eldi í fjörðum og flóum þurfa menn auðvitað að nýta þá auðlind sem er og eins og menn sjá ef þeir lesa nál. minni hlutans, þá er einmitt vikið að þessu máli. Okkur finnst óeðlilegt þegar flutt er frv. til laga um eldi nytjastofna sjávar, eldi sem á að fara fram í fjörðum landsins og flóum, að þar skuli hvergi vera vikið að því með hvaða hætti eða hvort eigi að taka gjald né heldur hvernig eigi að bregðast við ef tveir sækja um á sama stað o.s.frv. Hér er sem sé eins og ég gerði að umræðuefni fyrr í dag fullkomin vöntun á því sem kallað hefur verið auðlindastefna.

Það er svo sem engin nýlunda, herra forseti, það er miklu frekar eins konar merkimiði ríkisstjórnarinnar að vera með þau mál öll út og suður stefnulaus. Mér finnst það miður, herra forseti, vegna þess að þjóð sem byggir efnahagsafkomu sína að svo miklu leyti á nýtingu náttúruauðlinda eins og Íslendingar gera ætti auðvitað að reyna að búa sér til nothæfa auðlindapólitík.

Hæstv. sjútvrh. vék að því áðan í ræðu sinni að honum fyndist óþarfi að minni hlutinn í nefndinni væri að hafa af þessu nokkrar áhyggjur, af því fyrirkomulagi sem hér er verið að leggja til. Það má kannski segja að það væri út af fyrir sig ef það væri bara minni hlutinn í nefndinni eða við þrjú sem skrifum undir nál. sem hefðu af þessu einhverjar áhyggjur, en því er nú ekki að heilsa, herra forseti, að áhyggjurnar séu bundnar við okkur. Það má segja að flestir þeir sem hagsmuna hafa að gæta og sendu nefndinni umsögn hafi lýst nokkrum áhyggjum af þessu máli.

Það verður að segjast eins og er að umsagnir þeirra sem gerst máttu vita urðu ekki til að róa minni hluta sjútvn. heldur þvert á móti. Af því að mér virðist sem hæstv. ráðherrann hafi kannski aldrei lesið þær umsagnir eða fengið af þeim spurnir, og einnig til þess að þingheimur sé þá að öðru leyti upplýstur, finnst mér eðlilegt að vitna, með leyfi forseta, í nokkrar þeirra ef það mætti útskýra fyrir hæstv. ráðherra af hverju minni hlutinn lét ekki stillast og róast í nefndinni, heldur varð kannski órólegri eftir því sem á vinnslu málsins leið.

Í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar kom fram að fulltrúar fisksjúkdómanefndar báðu um að fá að koma á fund nefndarinnar og það var til þess að lýsa áhyggjum sínum af því fyrirkomulagi sem til stóð að koma á. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa það sem kemur fram í umsögn þeirra:

,,Fisksjúkdómanefnd er á einu máli um að til lengri tíma litið sé æskilegt að ein löggjöf gildi um fiskeldi í landinu og telur ekki heppilegt að kljúfa forræði eldisgreinarinnar til tveggja ráðuneyta, háð því hvaða tegund er alin hverju sinni. Nefndin tekur ekki afstöðu til heimvistunar fiskeldisgreinarinnar en hvetur til þess að samræmi og skynsemi sé höfð að leiðarljósi í takt við nútímastjórnsýslu. Á það skal þó bent að við eftirlit með fiskeldi er mikill styrkur og hagræðing fólgin í að gagnasöfnun sé á sömu hendi og telur nefndin mikilvægt að áunnin reynsla og fagleg færni nýtist fiskeldi í heild sinni í stað þess að dreifa kröftunum. Eftirlit Fiskistofu með eldi sjávarfiska er þannig augljós tvítekning, þar sem eftirlit með fiskeldisstöðvum er á hendi embættis veiðimálastjóra, samkvæmt lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með seinni breytingum. Í athugasemdum við frumvarpið er bent á að núgildandi ákvæði í fiskeldiskafla lax- og silungsveiðilaganna taki einungis til ferskvatnsfiska. Að mati fisksjúkdómanefndar er þetta ekki allsendis rétt. Í lax- og silungsveiðilögum segir í 68. grein: ,,Eldi annarra lagardýra í kvía- og strandeldi skal hlíta sömu reglum og eldi vatnafiska eftir því sem unnt er.`` Samkvæmt skilgreiningu núgildandi laga nær ákvæðið yfir öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni, þar með talda nytjastofna sjávar. Í núgildandi lögum er þó ekki tekið á sjávargróðri líkt og nefnt er í 2. grein frumvarpsins um eldi nytjastofna sjávar.``

Herra forseti. Ef ég mætti vitna áfram í þær umsagnir sem við í nefndinni höfum verið að vinna með, þá er hér umsögn frá dýralækni fisksjúkdóma sem leyfir sér að benda á umsögn fisksjúkdómanefndar og vísar í hana, tekur sem sé undir þá gagnrýni sem þar kemur fram.

Hér er einnig, herra forseti, umsögn frá Veiðimálastofnun, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Það er ljóst að ákveðið óhagræði er að fiskeldi tilheyrir tveimur ráðuneytum þ.e. sjávardýr tilheyra sjávarútvegsráðuneyti og laxfiskar landbúnaðaráðuneyti.`` Síðan er haldið áfram: ,,Enn fremur er slæmt að tveir aðilar sjá um útgáfu rekstrarleyfa og verða með eftirlit með fiskeldi. Það eru Fiskistofa með sjávardýrum og veiðimálastjóri með laxfiskum. Þessu fylgir mikið óhagræði og spurning hvort þetta ætti ekki að vera á sömu hendi, með því að fela öðru hvoru embættinu eftirlitið eða sameina þau.``

Síðan er, herra forseti, umsögn frá Hólaskóla, sem hefur verið með fiskeldi sem kennslugrein og þar sem er nokkur þekking á þessum hlutum, en þar segir, með leyfi forseta:

[18:00]

,,Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að bæði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti hafi yfirumsjón með málefnum fiskeldis. Þetta er afar óheppilegt fyrirkomulag. Það er mun eðlilegra að fela einu ráðuneyti alla yfirstjórn fiskeldis, en tryggja jafnframt aðkomu annarra ráðuneyta að málinu. Með þessu verður stjórnun á fiskeldi skilvirkari og koma má í veg fyrir óvissu um það hver eigi að fjalla um mál mismunandi fiskeldistegunda. Það er enginn eðlismunur á eldi vatnafiska og þeirra tegunda sem í frumvarpinu eru nefndar nytjastofnar sjávar. Þannig verður ekki séð að nein gild rök hnígi að því að laxeldi í kvíum í sjó heyri undir annað ráðuneyti en kvíaeldi á þorski. Sennilegt er að hér á landi verði í framtíðinni aldar tegundir annars staðar að úr heiminum eins og barri og tilapia. Barri er sjávarfiskur þó engan veginn sé hægt að telja hann til nytjastofna sjávar við Ísland. Samkvæmt frumvarpinu ætti barri sennilega að heyra undir sjávarútvegsráðuneytið. Tilapia er, líkt og barri, alin í kerjum á landi, en hún er vatnafiskur og mundi þess vegna falla undir landbúnaðarráðuneytið.``

Herra forseti. Af þessu má sjá og skilja að umsagnir þessar urðu nú ekki beinlínis til þess að segja fulltrúum í sjútvn. að hér væri verið að stíga hin réttustu skref.

Útgerðarfélag Akureyringa gefur umsögn um þetta frv. Þar kemur fram að til þess að stjórn fiskeldis sé skilvirk og samræmd þá sé brýnt að þessi málaflokkur heyri undir eitt og sama ráðuneyti.

Sömuleiðis gefur Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar umsögn. Í þessari umræðu hefur þegar verið vísað til þess að hin stóru sjávarútvegsfyrirtæki, m.a. þau fyrirtæki sem eru staðsett við Eyjafjörð, munu verða þátttakendur í stóru og miklu eldi. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar segir, með leyfi forseta:

,,En allt tal í frumvarpinu um nefnd, sem skipuð er af landbúnaðarráðherra, bendir til þess að málefni fiskeldis munu áfram þvælast milli ráðuneyta sem ekki er málefnum fiskeldis til framdráttar.``

Þeir halda áfram:

,,Við teljum hins vegar að mikilvægt sé að leyfisgjald verði greitt fyrir afnot af auðlindinni. Þetta er þekkt í nágrannalöndum okkar og því fyrr því betra.``

Þarna er vísað í annað mál sem ég ætla að víkja að aftur, herra forseti, og Þjóðhagsstofnun víkur að í sinni umsögn. Eftir að hafa fjallað um vaxandi áhuga á fiskeldi og hversu mikilvægur hluti af þjóðarbúskap Íslendinga megi ætla að það verði þá segir Þjóðhagsstofnun:

,,Erlendis er yfirleitt ekki tekið gjald fyrir rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja nema til að mæta kostnaði vegna leyfisveitingarinnar. Undantekning er nú orðin varðandi ný rekstrarleyfi fyrir laxeldi í Noregi. Rök fyrir slíku gjaldi eru að ekki sé ótakmarkað magn af heppilegum stöðum fyrir fiskeldi. Þá er rétt að benda á að væntanlega eru einstakir staðir mismunandi heppilegir fyrir rekstur fiskeldis og reikna má með að þeir sem fyrstir sæki um rekstrarleyfi sæki um bestu staðina. Endurgjaldslaus afhending slíkra rekstrarleyfa leiðir oft til harðvítugra deilna um réttmæti slíkra ráðstafana, einkum ef starfsemin verður mjög arðbær eins og laxeldi í Noregi hefur stundum verið.``

Herra forseti. Að lokum vil ég vitna í veiðimálastjóra. Niðurstaða hans er, með leyfi forseta, eins og hér segir:

,,Af því sem hér hefur komið fram verður ekki dregin önnur niðurstaða en sú að sérstök stjórnsýsla og eftirlit varðandi sjávarfiska sé ekki tímabær og eingöngu til þess fallin að flækja þá stjórnsýslu sem fyrir er og auka hættu á tvítekningu og ómarkvissum aðgerðum. Þá fjármuni sem ætlað er að verja til verkefnisins mætti einnig nýta mun betur.``

Herra forseti. Ég vænti þess að nú sé ég búin að koma nokkuð skýrt til skila að fleiri en við, þessi þrjú sem skrifum sem minni hluti sjútvn. upp á það nál. sem hv. þm. Jóhann Árælsson mælti fyrir hér áðan fyrir okkar hönd, höfum af þessu áhyggjur. En eins og ég gat um þá mátti ráða það af orðum hæstv. sjútvrh. að við værum svona eins og nokkuð einangraður hópur í áhyggjum okkar af þessu máli.

Nei, herra forseti. Okkur fannst og finnst full ástæða til þess að andæfa samþykkt þessa máls á þeim forsendum sem hér hafa verið raktar í tilvitnunum mínum í þá aðila sem sendu umsagnir og ég vil meina, herra forseti, að séu nú býsna marktækir. Þetta eru aðilar sem gerst mega vita hvernig þessum málum er best fyrir komið. Svo er hitt að sú tilfinning fór vaxandi meðal nefndarmanna á meðan umfjöllun málsins stóð að hér væri um eitthvert pólitískt samkomulag ráðherra að ræða um það hvernig þeir ætluðu að skipta þessum málaflokki á milli sín, þ.e. eins og segir í einni tilvitnuninni að hér réðust mál ekki af skynsemi heldur væri eitthvað annað á ferðinni í þessari verkefnaskiptingu. Og það verður að segjast eins og er að okkur fannst ekki stýra góðri lukku að það væri útgangspunkturinn hér.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að einhverjir hefðu kannski tilteknar skoðanir af því þeir væru í einhverjum eða vildu vera í einhverjum landvinningum. Það lýsir þessu kannski best. Við fengum sem sagt á tilfinninguna að hæstv. sjútvrh. væri þarna einmitt í landvinningum. Af því það er nú skoðun þeirrar sem hér stendur og okkar fleiri að löngu tímabært sé að stokka upp Stjórnarráðið, að menn fari að laga Stjórnarráðið að breyttum atvinnuháttum, þá verður að lesa niðurstöðu okkar í nefndaráliti minni hluta sjútvn. um vistun málaflokksins í því ljósi, enda kemur þar fram að við segjum:

,,... meðan sú skipting sem nú ríkir í Stjórnarráðinu er í gildi.``

Herra forseti. Við teljum sem sagt að á meðan sú skipting ríkir sem nú er sé eðlilegt að það ráðuneyti sem hefur þekkingu á eldi eða á að hafa þekkingu á eldi, fari með málaflokkinn og síðan horfi menn til þess hvernig skiptingin verði þegar við verðum búin að raða Stjórnarráðinu upp að nýju miðað við þær aðstæður sem eru og fyrirsjáanlegar eru í okkar málum.

Þegar farið var að ræða hér frv. þrjú sem fjalla um rannsóknir og vísindi kom fram í máli hæstv. forsrh. að verið væri að endurskoða reglugerð Stjórnarráðsins með það fyrir augum að stokka upp. Það kom fram af því tilefni að rökin fyrir því að breyta um umgjörð rannsókna í landinu voru fyrst og fremst þau að svo miklar breytingar hefðu átt sér stað í atvinnuháttum og fleiru að full ástæða væri til þess að skoða það, og þá upplýsti hæstv. forsrh. að verið væri að endurskoða reglugerð Stjórnarráðsins í sama skyni. Því má ætla að í lok þessa kjörtímabils, þ.e. eftir u.þ.b. ár, liggi þetta fyrir. Okkur finnst satt að segja algjör óþarfi að fara í þessar aðgerðir eða setja þessa niðurstöðu fasta sem hér er lögð til af hálfu meiri hlutans þegar svo háttar til að innan ekki svo langs tíma verðum við væntanlega komin með atvinnuvegaráðuneytið sem getur þá tekið á málum sem eru annars eins og hálfmunaðarlaus í kerfinu.

Herra forseti. Við látum þess líka getið í minnihlutaáliti okkar, eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að óviðunandi sé að framtíðarnýting sameiginlegra auðlinda skuli afhent án nokkurs endurgjalds. Þá eigum við við það að hér er mönnum úthlutað leyfi til þess að nýta hafsvæði, firði og flóa, án endurgjalds. Þarna er um að ræða takmarkaða auðlind og þegar farið er að skammta leyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind þá er nú lögmálið að slík leyfi öðlast tiltekið verðgildi og það mun sýna sig þegar annaðhvort leyfin eða fyrirtækin fara að ganga kaupum og sölum hvers virði þessi leyfi eru.

Mér finnst satt að segja undarlegt núna í upphafi 21. aldarinnar eftir alla þá umræðu sem átt hefur sér stað um auðlindanýtingu og það hvernig við súpum nú seyðið af því hvernig staðið hefur verið að úthlutun leyfa í ákveðnum atvinnugreinum sem síðan hafa verið framseld fyrir miklar upphæðir, að hér skuli flutt frv. um nýtingu náttúruauðlindar sem er sameiginleg, sem hefur þessi einkenni. Ég skil satt að segja ekki í hæstv. sjútvrh. að hann skyldi ekki gefa sínu fólki fyrirmæli um að leita leiða til þess að mæta þeirri gagnrýni sem augljóslega mun verða hér á landi rétt eins og í Noregi vegna þessara mála. Af hverju var ekki ákveðið að reyna að læra af mistökum annarra og feta í fótspor þeirra sem eru að reyna að gera hlutina betur?

Ég hafði um það nokkurt mál hér í dag þegar ég var að fjalla um virkjun við Kárahnjúka hversu mikil vöntun væri á auðlindapólitík og ég verð, herra forseti, að endurtaka það hér enn og aftur að mér finnst það í rauninni vera til skammar fyrir hæstv. ríkisstjórn að það skuli koma svona berlega í ljós að ekki bara virðast ráðherrar aldrei tala saman --- ríkisstjórnin virðist aldrei ræða þessi mál --- heldur jafnvel innan sama ráðuneytisins virðist vinstri höndin ekki vita hvað sú hægri er að gjöra, eða þá, herra forseti, að það einfaldlega bara heyrir ekki allt upp á sama daginn. Alla vega er mjög erfitt í rauninni fyrir alþingismenn og fyrir Alþingi að þurfa að takast á við málin hvert á fætur öðru þar sem stefnan er svo gjörólík. að ég veit ekki hvort það eigi að kalla það stefnu. Ég vil kalla það stefnuleysi. Það vantar algjörlega alla auðlindapólitík í þessi mál og það er mjög slæmt.

Herra forseti. Ég vænti þess að ræða mín með þessum tilvitnunum í umsagnaraðila hafi leiðrétt aðeins það álit hæstv. ráðherra að hér væri ekki ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af neinu fyrst þeir aðilar sem þessi álit skrifuðu sjá ástæðu til þess að hafa af þessu áhyggjur. Ég þarf ekki að telja upp hverjir það voru. Ég get gert það ef fyrir því er áhugi. Ég held því að ráðherra þurfi ekki að furða sig á því að nefndarmenn hafi haft og hafi af þessu nokkrar áhyggjur. Ég vil minna á að þetta mál var flutt á síðasta þingi en var þá gert afturreka sakir þess að það þótti hreint ekki nógu vel unnið og nógu vel úthugsað. Ég held nú, herra forseti, að það yrði þessu máli fyrst og fremst til góðs ef það yrði látið liggja og hæstv. ráðherra biði þess sem verða vill með uppstokkun í Stjórnarráðinu og að eldismál kæmust síðan á eina hönd eins og hér er lagt til í flestum þeim álitum sem fyrir nefndina komu.