Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:18:14 (6459)

2002-03-21 18:18:14# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:18]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Ég er ekki að segja hv. þingmanni eitt eða neitt um það á hvað hún á að hlusta. Ég er einfaldlega að reyna að útskýra fyrir henni hver staða málanna er. Ef einhverjir eru í landvinningastarfsemi sýnist mér það vera þessir embættismenn sem hún er að vitna í, sem hins vegar kemur mér mjög á óvart miðað við afstöðu landbrn.

Hvað varðar landvinninga sjútvrh., hvenær hefur einhver haldið því fram að eldi sjávardýra væri á hendi einhvers annars ráðuneytis en sjútvrn.? Hvers vegna er Hafrannsóknastofnunin með rannsóknastöð varðandi eldi sjávardýra í Grindavík? Hvers vegna er Hafrannsóknastofnunin stærsti hluthafinn í fiskeldi Eyjafjarðar? Hvers vegna er sjútvrn. með sérstaka fjárveitingu frá hv. Alþingi til að styrkja fiskeldi sjávardýra? Hvers vegna var fyrirspurn um kræklingarækt beint til sjútvrh., fyrirspurninni sem ég svaraði hér í gær? Hvar eru landvinningarnir? Til hvers annars hefði átt að beina fyrirspurninni? Hverjir aðrir eru að rannsaka krækling, hverjir eru sérfræðingarnir í kræklingarækt? Hverjir eru sérfræðingarnir í þorskeldi? Hverjir eru sérfræðingarnir í lúðueldi? Hvar eru þessir sérfræðingar annars staðar en í sjútvrn.?

Þó að laxeldi og eldi annarra sjávardýra sé auðvitað skylt --- ég er þegar búinn að fara yfir það hvers vegna ég sjái fullgild rök fyrir því að eldi vatnafiska sé í öðru ráðuneyti og ástæðulaust að fara yfir það aftur --- er rangt að tala um einhverja landvinninga. Það er einfaldlega verið að reyna að setja skýrari línur fyrir það sem er vonandi vaxandi atvinnugrein, herra forseti.