Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:20:28 (6460)

2002-03-21 18:20:28# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sú umræða sem þegar hefur farið fram um þetta mál, nú þegar það er nýkomið úr nefnd, segi í rauninni allt sem segja þarf um það hversu fráleitt er að fiskeldi eigi að heyra undir tvö ráðuneyti.

Mér finnast svör hæstv. ráðherra fyrst og fremst hafa fært okkur enn frekari sönnur á að auðvitað á eldi að vera á einni hendi. Flestir höfðu einmitt áhyggjur af því að nú, þegar fer að reyna á löggjöfina um eldi sjávarfiska og menn ætla að fara að setja um það sérstaka löggjöf, skuli menn fara þá leið að setja lög í takti við það sem fyrirliggjandi frv. segir fyrir um í stað þess að nýta tækifærið og setja allt eldið undir einn hatt. Mér finnst, herra forseti, að þessi umræða og framganga hæstv. sjútvrh. hafi nákvæmlega útskýrt fyrir okkur af hverju það er svo mikilvægt að það sé á einni hendi.