Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:35:08 (6462)

2002-03-21 18:35:08# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. þm. fyrir að staðfesta það sem ég sagði um hvernig málin hefðu þróast og hvernig þau hafa verið í fortíðinni, að það hafi verið rétt, enda er hv. þm. fyrrv. landbrh. og var m.a. landbrh. hluta þess tíma sem ég var dýralæknir fisksjúkdóma.

Mér heyrist samt sem áður á því sem hann segir að ekki sé rosalega langt á milli þess sem verið er að reyna að gera í þessu frv. og þess sem var gert í frv. um lax- og silungsveiði í fyrra, sérstaklega ef maður hefur hliðsjón af því hvernig gildissvið lax- og silungsveiðilaganna er skilgreint. Lögin gilda um laxfiska og vatnafiska, vatnafiskar eru skilgreindir sem fiskar sem lifa hluta lífsferils síns í fersku vatni. Nytjastofnar sjávar eru síðan skilgreindir í frv. þó kannski færi betur á að gera það á eilítið annan hátt. Þó held ég að það sé gert þannig að menn skilji alveg hvað verið er að meina. Þess vegna er verið að skilgreina þetta eftir tegundum þannig að eldi á laxi úti í sjó heyri undir landbrn., af því að það er laxfiskur, en eldi á lúðu uppi á landi heyri undir sjútvrn., af því að það er sjávartegund.

Fiskeldisnefndin hefur síðan svipaða nálgun og hv. þm. nefndi með að stofna einhverja framkvæmdastofnun sem færi sameiginlega með eldið. Fiskeldisnefndin er til að fara yfir þau mál sem þarf að taka á sameiginlega og gæta þess að ráðherrarnir báðir fái sams konar faglega ráðgjöf í þeim málefnum sem undir ráðuneytin heyra. Eins og ég lýsti hér áðan á fundinum, áður en hv. þm. var kominn í salinn --- hann en gæti hafa hlustað á það annars staðar --- hef ég ekki séð neina ástæðu til að byggja upp annað fisksjúkdómaapparat en það sem er í gangi í dag. Ég hef alltaf hugsað mér, herra forseti, að það yrði líka nýtt af hálfu sjútvrn.