Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 19:07:36 (6472)

2002-03-21 19:07:36# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[19:07]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri það á hæstv. sjútvrh. að hann er grjótharður á því að lið hans skuli fylkja þessu undir ráðuneyti hans. Það er nú svo þegar mikill meiri hluti er í þinginu sem styður ríkisstjórnina þá tekst ráðherrum yfirleitt að fá það fram sem þeir vilja.

Þess vegna vil ég við lok umræðunnar beina þeim eindregnu tilmælum til sjútvrh., ef þetta lendir undir verndarvæng hans eins og sagt er, að hann geri aðilum sem hugsanlega vilja taka sér fyrir hendur eldi í minni stíl kleift að fara í slíkt eldi, slíkt áframeldi. Ég held að á því landsvæði sem ég kem frá, Vestfjörðum, og á Norðurlandi og Norðausturlandi, búum við að þeirri fiskstærð sem löngum hefur verið talin til ama hér á landi, þ.e. smáum fiski. Það gæti farið svo að þessi smái fiskur gæti orðið ansi mikil verðmæti. Og það má ekki setja þau stífu skilyrði inn í lögin að þeir sem búa nálægt ströndinni, hvort sem það eru fiskimenn eða bændur, geti ekki nýtt sér það að fara í takmarkað áframeldi með eðlilegum hætti án þess að þeir lendi í einhverjum ægilegum frumskógi leyfa og úttektar sem kosti þá mikið. Ég teysti ráðherranum til þess að horfa á þetta sem ákveðið byggðamál og af fullri skynsemi.