Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 19:13:38 (6476)

2002-03-21 19:13:38# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[19:13]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af þessu. Þökkum guði fyrir að þeir eru ekki hver á eftir öðrum í báðum þessum atvinnugreinum.

En ég tel eðlilegt að frv. fái framgang og í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram sé þá eðlilegt að hæstv. sjútvrh. og landbrh. setjist yfir málið og skoði það með tilliti til hagsmuna þeirra aðila sem hér eru að hefja svo mikla sókn í fiskeldi sem raun ber vitni. Ég tel að sú grein eigi fullan rétt á sér og muni væntanlega gefa íslensku þjóðarbúi góðar tekjur.

En hvað áhrærir þá einstaklinga sem ætla að ráðast í þessa atvinnugrein þá verður auðvitað að búa þeim það umhverfi að menn séu ekki nánast girtir af eftirlitsmönnum beggja ráðuneytanna þegar til verkanna kemur. Ég endurtek að undir þessari umræðu tel ég eðlilegt og rétt að þetta sé á einni hendi og ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera sjútvrn. en tel, eins og staða málsins er nú, eðlilegt að málið fái framgang og að tíminn verði notaður af miklum krafti til að skoða hvernig megi gera þessa atvinnugrein sem aðgengilegasta fyrir þá sem ætla að stunda hana.