Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 20:00:05 (6477)

2002-03-21 20:00:05# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[20:00]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Þá höldum við áfram umræðu um frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Þetta er efnismikið frv. Þó að frumvarpsgreinarnar séu ekki margar og ekki langar þá er málið stórt og í raun það alstærsta framkvæmdalega séð sem komið hefur á borð alþingismanna.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er efnislega á móti málinu og af mörgum ástæðum. Í ræðum okkar, athugasemdum og ábendingum annarra þingmanna hefur margoft komið fram að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er eini þingflokkurinn sem er á móti þessu stóra og mikla máli. En það eru fjölmargar ástæður fyrir því og eru þær bæði vegna umhverfisáhrifa fyrirhugaðra framkvæmda, félagslegra áhrifa og efnahagslegra áhrifa. En það má segja að eitt eigi þetta allt saman sameiginlegt, andstaða okkar gegn slíkri framkvæmd, og það er stærðin, þ.e. stærð álversins sem kallar á svo mikla orku að ekki verði virkjað á annan hátt en Kárahnjúkavirkjun er fyrirhuguð núna, eins og hún er hönnuð á teikniborðinu með hinu stóra og mikla uppistöðulóni. Það er sem sé stærð álversins sem hefur kallað á breytingar á skipulagi þessa svæðis því samkvæmt svæðisskipulagi var mun minna lón en núverandi lón heimilað á Kárahnjúkasvæðinu og hefði ekki valdið jafnmiklum spjöllum vegna stærðarinnar eins og núverandi hönnun gerir ráð fyrir. Ekki hefði þá verið gengið eins á friðuð landsvæði og viðkvæmum svæðum að einhverju leyti hlíft. Það er því stærð lónsins sem kallar á enn frekari spjöll en hefði þurft að vera.

Stærð álversins er einnig komin úr takti við þann mannfjölda sem býr á Austurlandi og sem að öllum líkindum mun búa þar á næstu áratugum, en allt eru þetta nú spár. Félagslegt umhverfi álversins er viðkvæmt og ég tel að verið sé að setja allt of stóran vinnustað niður á Miðausturlandi. Staðsetning álversins er líka mjög umdeilanleg, þ.e. að setja niður svo stórt álver við lygnan fjörð þar sem há fjöll umlykja fjörðinn og logn er oft ríkjandi. Þetta eru ekki þær aðstæður sem við ættum að velja staðsetningu fyrir svo stórt álver eins og hér um ræðir.

Náttúruspjöllin sem verða af slíkri framkvæmd allri snúa aðallega að Kárahnjúkavirkjuninni sjálfri og eru af þeirri stærðargráðu og eru óafturkræf að falla hefði átt frá þeirri hönnun sem nú á hér að samþykkja vegna stærðarinnar og vegna þeirra miklu óafturkræfu spjalla sem virkjunin mun valda. Þrátt fyrir að hæstv. umhvrh. hafi gert þó nokkrar breytingar á hönnun Kárahnjúkavirkjunar og úrskurðað í 20 liðum eru ekki nema nokkrir liðir sem hafa í raun og veru áhrif á framkvæmdina sjálfa. Langflestir liðirnir eru vöktun og rannsóknir og í rauninni bara eðlileg eftirfylgni með áhrifum framkvæmdarinnar. En það sem hefur ekki breyst er vatnaflutningurinn mikli. Jökla verður áfram tekin úr farvegi sínum og flutt yfir í Lagarfljótið og það er ekkert sem kemur til með að breyta leirmagninu sem sest í Hálslónið og bakka þess þar sem það dreifist við breytilegt vatnsborð lónsins og það set mun ekki dreifast bara í þær gryfjur eða þær tæknilegu gildrur sem á að setja þarna upp til þess að hefta fokið. Tæknilega er þetta illmögulegt og ljóst er að Landsvirkjun hefur ekki getað sýnt óyggjandi fram á að hægt verði að hefta þetta fok nema þá að mjög takmörkuðu leyti. Leirinn er þannig, hæstv. forseti, að hann er mjög þéttur og kemur til með að leggjast yfir stórt svæði og kæfir allan gróður. Þetta er ekki jarðvegur til að gróðursetja í og koma gróðurvinjum upp aftur --- en það svæði sem hann mun leggjast yfir er Kringilsárrani, það sem eftir er af Kringilsárrana því stórum hluta hans verður drekkt í vatni --- og þessi jarðvegur fýkur yfir Vestur-Öræfin. Þarna eru gróðurvinjar sem illmögulegt verður að rækta upp aftur, og maður getur séð það fyrir sér að innan einhvers tíma, áratuga, þá stefnum við í að gera þarna eyðimörk og landauðn þar sem eru gróðurvinjar í dag.

Við búum ekki yfir þeirri tækni að geta heft eða hindrað slíkt. Auk þess er Hálslón sem slíkt ekki sjálfbært, það er eins mikið öfugmæli að kalla það sjálfbært og hugsast getur, því að hinn mikli leirframburður og aurframburður úr Jöklu kemur til með að fylla það á nokkuð löngum tíma. En þegar á fyrstu áratugum og árhundraði fyllist innsti hluti lónsins og það minnkar. Við erum að skilja eftir mikið vandamál fyrir afkomendur okkar sem við höfum ekki hugmynd um hvernig á að leysa. Við gætum ekki leyst það í dag að þrífa upp leirinn þegar lónið er orðið fullt og mér finnst það fullkomlega óábyrgt að vísa því til komandi kynslóða að gera það eða að treysta því að þá verði til einhvers konar tækni til að moka þarna, hreinsa til eða byrgja yfir.

Efnahagslega stærðin er mikil og mjög umdeilt hvort þessi framkvæmd öll, Noral-verkefnið, hafi í raun nokkurn tíma möguleika til að vera arðbær fjárfesting. Að minnsta kosti er ljóst að hún mun sem fjárfesting ekki standa sem sjálfstæð eining. Hún verður að hafa ríkisábyrgð fyrir allri framkvæmdinni og hún mun hafa margvíslegar hliðarverkanir á efnahagslíf okkar sem við verðum að taka á meðan á framkvæmdatíma stendur og eins að hluta til inn í framtíðina.

Hvað varðar íbúa Austurlands, þá tala ég af heilum hug gegn þeirri stóru framkvæmd og ég geri það sem íbúi Austurlands því að ég tel að þrátt fyrir að aukin umsvif verði á Miðausturlandi, sérstaklega meðan á öllum þeim miklu framkvæmdum stendur og þrátt fyrir að skapaður verði stöðugleiki á því svæði meðan álverið verður rekið, ef það verður reist á Reyðarfirði, þá séu það minni hagsmunir fyrir meiri og það sé miklu heppilegra og að öllu leyti betra fyrir fjórðunginn að halda þeirri náttúruperlu sem við eigum inni á hálendinu, skapa þar möguleika fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar með öðrum hætti en að hafa virkjunina þar inni og skapa festu í atvinnu með fjölbreyttari atvinnugreinum en einni álverksmiðju.

En það gerist ekkert af sjálfu sér og ég skynja vel og get vel sett mig í spor allra þeirra sem hafa bundið við þessar framkvæmdir miklar væntingar. Þær eru ekkert nýjar, þær hafa verið í mörg ár. Þegar ég fluttist austur á Egilsstaði árið 1983 lágu slíkar væntingar í loftinu og þá fengum við hjónin að heyra að þær væntingar sem þá höfðu gengið yfir hefðu í raun stórskemmt fyrir Austfirðingum því að biðin er það versta. Það að vera svikinn er vont og að vera haldið stöðugt við efnið að hugsanlega sé þetta að koma dregur þrótt úr fólki við að takast á við aðrar framkvæmdir og aðra uppbyggingu af einhverjum krafti og slík bið er tærandi.

Nú er ég ekki að segja að fólk fyrir austan hafi setið með hendur í skauti og ekki gert neitt, fjarri því. Þar er mjög margt í gangi og þar eru mjög margir sprotar og ótal hugmyndir í gangi þar sem fólk hefði haft og hefur vilja til þess að koma af stað, þ.e. atvinnu eða vinnu að hugmyndum sem það hefur ekki fjárráð eða stuðning, hvorki faglegan né efnahagslegan, til að vinna áfram að. Ekki er búið að drepa allan lífsþróttinn úr Austfirðingum en biðin og þær miklu væntingar og bindingar sem hafa verið við þetta eru slæmar.

Ég er á móti þessari framkvæmd en mér finnst og hefur alla tíð fundist það vera mikil ábyrgð að binda sig svona algjörlega við þá framkvæmd og huga ekki jafnhliða að annarri uppbyggingu eða hafa þessa stóru framkvæmd svolítið til hliðar, hún kemur ef hún kemur, en vinna að þessari grunnuppbyggingu heima fyrir.

Nú er svo komið að þeir sem ekki eru hlynntir þessu sem eru sannarlega til líka þó að mikill meiri hluti Austfirðinga styðji það að farið verði í þetta verkefni, enda hefur ekkert annað verið í boði. Það er bara þetta eða ekki neitt, sjá ekki aðrar lausnir en að farið verði í þær miklu framkvæmdir, ekki að fólk sé endilega svo hrifið af álverinu og ekki að það hafi ekki áhyggjur af þeim náttúruspjöllum sem virkjunin mun valda, heldur eingöngu vegna þess að það er ekkert annað. Það er illa farið með fólk og ég vil fá lausn í þetta mál svo hægt verði að fara í jákvæða uppbyggingu.

[20:15]

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum farið fram á frestun á þessum umræðum fram yfir helgi. Eins og við vitum öll er væntanleg yfirlýsing frá Norsk Hydro um framgang málsins og það meira en liggur í loftinu að þeir séu ekki tilbúnir til að fara í þetta verkefni, a.m.k. ekki eftir þeirri tímaáætlun sem hefur verið sett upp. Maður getur lesið um það í fjölmiðlum. Þar er verið að draga fram sögur eða fara yfir feril Norsk Hydro en af honum virðist vera ljóst að þetta stóra og mikla fyrirtæki virðist leika þann leik að festa sig, taka frá svæði og halda ríkisstjórnum eða þeim sem vilja selja orkuna í spennu. Hugsanlega eru þeir að nota þetta til að geta haft áhrif á raforkuverð, annaðhvort heima fyrir eða annars staðar. A.m.k. virðist vera orðið alveg ljóst að miðað við þá frestun sem þeim var gefin frá því núna í febrúar og fram á haustið hefur legið í loftinu að þeir hafi vitað betur sl. haust, hvorki væri meiri ábyrgð eða vilji fyrir því en komið hefur í ljós.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að afstaða Norsk Hydro skýrist áður en við göngum frá þessu máli. Stærð Kárahnjúkavirkjunar og hönnun eins og hún er hér og talað er fyrir miðast við stærð álversins. Að auki er viðbót, það á að sækja orku í Kröflu og Bjarnarflag. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að of skært grænt ljós sé gefið á þær virkjanir því að þessi stækkun á Kröflu hefur ekki farið í umhverfismat og línurnar sem verður að reisa og setja á milli Kröflu og yfir á Kárahnjúkasvæðið og yfir á Reyðarfjörð hafa heldur ekki farið í mat þannig að helst til sterkt grænt ljós hefur verið gefið á framkvæmdir sem við vitum ekki hvernig koma út í umhverfismati. Við lærðum hér fyrir einu og hálfu ári að ef búið er að gefa leyfi samkvæmt lögum á ákveðna virkjun og virkjunarframkvæmd eins og var á Fljótsdalsvirkjun stendur það leyfi ansi fast hvernig sem umhverfismat kemur svo út.

Herra forseti. Allt skal nú vera í réttri röð, og ég tel að þessi stóra og mikla framkvæmd hafi verið sett hérna framar í það verklag sem við ættum að vinna eftir en ásættanlegt er. Það er verið að vinna rammaáætlun um virkjanir, vatnsafls- og jarðvarma-, eins og margoft hefur komið fram og auðvitað eigum við að klára þá vinnu og setja þetta risaverkefni inn í þá rammaáætlun þannig að við vitum a.m.k. og gerum okkur grein fyrir því hvað það þýðir að taka svo stóran hluta af rafnýtanlegri orku í álver eins og við ætlum að gera núna og hvernig þessi virkjunarkostur passar inn í þá heildarmynd sem við ætlum að fara að setja upp. Heildarmyndin verður orðin ansi brotakennd og óljós þegar við tökum frá svo stóran hlut sem vatnasvæði Jöklu og Jökulsár í Fljótsdal.

Tökum bara einn þáttinn út úr sem er mikil andstaða við, þessa miklu vatnaflutninga, þ.e. að taka Jöklu og flytja hana úr Jökuldalnum yfir í Fljótsdal. Herra forseti. Ég hélt að menn gerðu ekki svona hluti lengur, það heyrði fortíðinni til að menn væru að flytja stórfljótin á milli vatnasvæða. Ég tala nú ekki um að láta sér detta í hug að virkja jafngruggugt og mikið jökulfljót og Jöklu og dengja henni yfir í Lagarfljótið með þeim ófyrirsjáanlegu afleiðingum sem það mun valda. Við getum reynt að spá í hluta þeirra en við verðum að viðurkenna að við getum alls ekki séð fyrir hvaða afleiðingar það muni svo hafa í framtíðinni. Það er ekki hægt.

Fyrir helgi birtist í Morgunblaðinu heilsíðuauglýsing með nöfnum fjölmargra Austfirðinga sem mótmæla þessum vatnaflutningum einum og sér, burt séð frá öllu öðru. Það er margt við þetta að athuga og þó að við séum komin að þeim tímapunkti núna að segja að búið sé að vinna allt saman vel, Alþingi hafi sinnt störfum sínum og allt sé í réttum farvegi, má ýmislegt athuga við þann feril sem spannar frá upphafi og fram til þessarar stundar.

Í fyrsta lagi má nefna það ferli sem fór í gang þegar þetta stóra verkefni var sett í mat á umhverfisáhrifum. Það var í mikilli tímapressu Noral-verkefnisins eins og það var þegar átti að vera búið að ganga frá öllu 1. sept. sl., og vinnan mótaðist af því. Langflestir sem komu að rannsóknum og úttekt varðandi þetta mikla mat, sem voru fjölmargir sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum, höfðu í raun og veru mjög stuttan tíma, eitt til tvö sumur. Það segir sig hins vegar sjálft að það er ekki óeðlilegt að rannsóknir á slíku verkefni og umhverfismat taki að lágmarki fimm ár, ekki síst ef við tökum með í reikninginn að á mörgum sviðum vantaði hreinlega grunnrannsóknir. Matið var áfram með mjög umdeilanlegum hætti, svo ekki sé meira sagt. Það kom líka fram í langflestum skýrslunum að meiri tíma vantaði til að vinna hlutina betur.

Eftir að hafa farið yfir öll þessi gögn komst skipulagsstjóri að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin mundi valda það miklum óafturkræfum umhverfisspjöllum að ekki væri ásættanlegt að fara í hana, og vísaði málinu frá. Þrátt fyrir að skipulagsstjóri tæki tillit til hins efnahagslega þáttar sem Landsvirkjun var með í dæminu --- þ.e. þess ávinnings sem verkefnið átti að skila út í þjóðfélagið --- og að hugsanlega ætti að verða af þessu þjóðhagslegur ávinningur var framkvæmdin óásættanleg. En þegar kom að umhvrh. hæstv. byrjaði hún á að fara í viðbótarmat sem er alveg á skjön við lög um mat á umhverfisáhrifum, og það var vegna þess að fram hafði komið að frekari upplýsingar vantaði, upplýsingar sem ekki hafði verið möguleiki á að vinna, og í staðinn fyrir að vísa málinu til heimahúsanna, aftur til skipulagsstjóra og láta vinna vinnuna eins og átti að gera tók hún þá ákvörðun að gera þetta í nafni embættisins og sneri síðan úrskurði skipulagsstjóra alveg hreint á hvolf. Hún tók að vísu tillit til nokkurra þátta sem voru flestir til bóta --- ég ætla ekki að draga úr því --- en sem skiptu ekki máli í því stóra samhengi sem varðar vatnaflutningana, Hálslónið og fok.

Það sem vantar þá upp á, herra forseti, er að gera úrskurð hennar að hluta af þessu frv. þannig að það sé alveg ljóst að Landsvirkjun verði að fara eftir öllum þessum liðum og vakta eins og úrskurðað er. Ég sé ekki á frv. að af sjálfu sér verði þess gætt.

Herra forseti. Ég sagði áðan að með tilliti til heimsmyndarinnar væri löngum vísað til þess að langmest af þeirri orku sem notuð er í áliðnaðinn kæmi frá jarðefnaeldsneyti, sem sé kolum og olíu, en vatnsföllin væri sjálfbær orka og því bæri okkur að leggja okkar af mörkum í þetta stóra samhengi. En þetta er blekking. Kárahnjúkavirkjun gefur ekki sjálfbæra orku en við getum sagt að þessi orka mengi ekki. Og það er í sjálfu sér allt annað en að segja að hún sé sjálfbær. En þetta er ekki mengandi orka og þannig er gott að við getum lagt okkar af mörkum en sjálfbær er hún ekki vegna þess að óafturkræf náttúruspjöll eru unnin. Okkur ber að nefna hlutina réttu nafni og vera ekki að blekkja neinn, hvorki okkur né þjóðina, með því að vera að tala um sjálfbæra orku. Þótt um sé að ræða vatnsföll eru þau mismunandi. Við erum með virkjanir sem við gætum örugglega sagt að væru sjálfbærar, gæfu af sér sjálfbæra orku, en þessi gerir það ekki.

[20:30]

Fleira kemur hér inn í sem snýr að orkunni og álverinu, þ.e. hin svokallaða Kyoto-bókun þar sem er þetta stóra samhengi um viðleitni þjóða heims til að reyna að draga úr áhrifum gróðurhúsalofttegunda á lofthjúp jarðar þannig að við reynum að snúa við þeirri þróun sem er að verða núna í himinhvolfunum og sem veldur auknu hitastigi á jörðinni. Sú undanþága sem við fengum frá Kyoto-bókuninni um að mega losa meira en aðrar þjóðir á viðmiðunarárinu, 1990, gerir landið auðvitað eftirsóknarvert fyrir mengandi iðnað. Það er eftirsóknarvert að geta komist hérna í aukinn mengunarkvóta því að þó að ekki sé búið að setja kvótann á þá verður settur á svokallaður mengunarkvóti. Við erum þá fyrir fram að úthluta þessari stóru verksmiðju, núna þegar við vitum hvað í vændum er, stóran hluta af þeim kvóta og við getum spurt okkur hvort það sé réttlætanlegt. Í þeim texta sem við höfum fengið fréttir af og menn hafa sett stafina sína undir --- það er ekki kominn neinn bindandi samningur við Reyðarál eða Norsk Hydro --- hefur hvergi komið fram að í framtíðinni muni þessi verksmiðja borga mengunartoll. Þegar við förum að líta á mengunartolla sem íþyngjandi fyrir mengandi verksmiðjur erum við búin að gefa þessu álveri ásamt öðrum sem fyrir eru ívilnun sem ég hefði haldið að ætti að koma fram í þeim samningum sem á að gera þannig að álverið taki á sig þennan toll vegna mengunar frá verksmiðjunni. Við komum til með að nota mengunarskatta þó við séum ekki búin að leggja þá almennt á enn þá. Þessi ákvæði, þessi hugsun, um mengunarkvótana er þegar farin að hafa áhrif hér á landi á öðrum sviðum. Við erum t.d. farin að hugsa um gróðurvernd, gróðursetningu, skógrækt og landgræðslu út frá koltvísýringsbindingu, og stóriðja ekki síður en út frá gróðurverndarsjónarmiðum. Við erum farin í stórkostlega skógrækt í þeim tilgangi að binda koltvísýring en ekki eingöngu vegna skógræktarinnar sem atvinnugreinar, til að prýða landið eða sem jarðrækt, og þess vegna er þessi hugsun, herra forseti, þegar farin að setja mark á framkvæmdir okkar, farin að binda fé og marka stefnu okkar.

Ég ætla lítillega að nefna hina stóru efnahagslegu þætti. Allir útreikningar byggja á spám og eru því ekkert nema spádómar. Og útreikningar og arðsemismat þeirra sem reikna fyrir álverið eða Noral-verkefnið eru ekkert áreiðanlegri en spár annarra hagfræðinga sem komast að allt annarri niðurstöðu því að þetta byggist að mestu leyti á tveimur þáttum, þ.e. álverðinu, hvernig það verður í upphafi og hver þróunin verður, og af raforkuverðinu við upphaf samningsins og hvernig það verður áfram.

Síðan má ekki gleyma því að við þurfum einnig að horfa á þetta í því samhengi hvert raforkuverðið gæti verið fyrir almenning og til annarra nota ef Landsvirkjun færi ekki út í svo gríðarlegar framkvæmdir sem þessar, hvort það gæti þá skilað sér í lægra raforkuverði til almennings og til iðnaðarstarfsemi í landinu. Það eitt mundi vera mikil innspýting í efnahagslífið þótt ekkert annað væri gert.

Eitt er ljóst hvernig svo sem þetta er reiknað --- og ég treysti hagfræðingum Landsvirkjunar og Noral-verkefnisins ekkert betur en þeim sem geta alls ekki reiknað inn í þetta nokkurn hagnað heldur íþyngjandi álögur fyrir þjóðarbúið og Landsvirkjun um einhvern tíma --- að verkefnið sem slíkt getur ekki staðið sem sjálfstæð eining. Það hefur sýnt sig að það er erfitt að fá eignaraðila, bæði íslenska og erlenda --- Norsk Hydro er nú eins og vofa í dag --- og ég tel hæpið að verkefnið gengi ef við værum búin að taka í gildi þau nýju raforkulög sem búið er að boða hér á þingi.

Annað er ljóst, þ.e. að verkefnið gengur ekki nema hið opinbera komi að málinu líka. Vaxtahækkanir verða að koma til. Það verður að draga úr opinberum framkvæmdum og það verður að auðvelda innflutning á erlendu vinnuafli. Þetta má allt saman lesa í séráliti Seðlabankans. Ég ætla ekkert að fara yfir það hér. Það munu aðrir gera og hafa gert. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði það vel við 1. umr. þessa máls. Hann tók þá efnahagsþáttinn vel fyrir, lagði áherslu á hann en sleppti hinum þáttunum, lét okkur hin um að gera grein fyrir þeim. Það að hann skyldi einhenda sér í efnhagsþáttinn hefur þýtt í máli manna, af því að menn eru alltaf tilbúnir að snúa út úr, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafi alveg yfirgefið græna litinn og farið yfir í efnahagsþáttinn og að umhverfismálin skipti nú ekki nokkru máli. Svona er hægt að snúa öllu á hvolf, herra forseti, þannig að ég ætla ekki að fara frekar yfir þetta.

Við höfum kallað eftir upplýsingum þegar við erum að taka jafnstórar ákvarðanir og þessa, vitandi að það verður að draga úr opinberum framkvæmdum og þá viljum við auðvitað vita hvað verður fyrir valinu. Er komin einhver verklagsáætlun? Mér þykir sjálfri nokkuð ljóst að ef af þessu verður þá verði a.m.k. einfaldast að slá af fyrirhugaða jarðgangagerð, vegaframkvæmdir sem ekki eru hafnar, þ.e. stóra þætti sem er ekki byrjað á. Jarðgangagerð væri þá líklegust til að vera slegin af.

Við eigum nógu erfitt með að koma saman fjárlagafrv. á hverju ári miðað við öll þau margvíslegu og miklu verkefni sem við viljum standa vel að þannig að ég er ekki viss um að við munum auðveldlega ná sáttum um fjárlagagerðina ef stór verkefni eiga að fara þar alfarið út af borðinu.

Herra forseti. Þar sem Austfirðingar eru nú mjög órólegir sem og margir aðrir landsmenn vegna stöðu málsins vil ég láta það koma hér fram að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum allan tímann varað við því að vera ekki með áætlun B, eins og við höfum kallað það, að vera með (Gripið fram í: Það er fín áætlun.) áætlun B. Kom nú framsóknarmaðurinn í salinn. Já, áætlun B gæti verið góð fyrir framsóknarmenn ef Byggðastofnun hefði staðið betur að málum en hún hefur gert. En það er ekkert fast í hendi fyrr en búið er að skrifa undir og ganga frá svona stórum samningum. Og vegna þess tíma sem þetta eitt hefur verið í sjónmáli vil ég telja upp nokkra þætti sem ég tel að hefði átt að vera búið að vinna ötullega í, þætti sem Austfirðingar sjálfir hafa beðið um aðstoð við og nefnt sem mikilvæga til að byggja upp atvinnu og mannlíf á Austurlandi, en sem hafa að miklu leyti fengið að vera í friði.

Einn mikilvægasti þátturinn í atvinnulífinu í dag er uppbygging ferðaþjónustunnar. Þá vil ég nefna hinn stóra og góða millilandaflugvöll á Egilsstöðum sem hefur verið nær ónýttur til millilandaflugs fram að þessu. Mikið hefur verið leitað eftir aðstoð hins opinbera núna í mörg ár til að koma á reglubundnu millilandaflugi, þótt ekki væri nema yfir sumartímann, því að þetta gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að styðja viðkomandi flugfélag til að fá það til að koma. Það þarf mikla og öfluga markaðssókn erlendis og það þarf að byggja upp aðstöðu og net ferðaþjónustuaðila á Austurlandi til að taka þá á móti fólki. Þessi beiðni um að fá aðstoð til að gera þetta er búin að liggja fyrir svo lengi sem ég man og frá því að flugvöllurinn var opnaður.

Sem betur fer má ætla að af þessu verði í sumar. En það er að mestu leyti fyrir dugnað annarra en hins opinbera. Nú er ég ekki að segja að hið opinbera eigi að standa alfarið í þessum rekstri. En stuðningur við þá aðila sem standa að þessu hefði hins vegar þurft að koma miklu fyrr og vera miklu meiri. Það er verið að hamra á sveitarfélögunum að koma að þessu máli en þau eru ekki of vel sett fjárhagslega til að styðja við þessa tilraun þó svo að þau vildu það af öllum mætti. Þetta kostar mikið. Þetta er fagvinna. Ég tel að þarna sé mikið verk óunnið enn þá og hægt að koma að þessu til að byggja upp fyrir framtíðina.

Það hefði þurft að styðja Ferðamiðstöð Austurlands miklu betur. Þar vinnur nú í fullu starfi ein manneskja yfir vetrartímann og fleiri yfir sumartímann. Það þarf að vinna miklu kröftugra þróunarstarf og að meira að markaðssetningu innan lands en Ferðamiðstöðin hefur tök á að gera í dag þrátt fyrir að hún sé í góðu samstarfi við Atvinnuþróunarfélagið. Þarna vantar góðan stuðning. En þarna eru góðir starfskraftar, miklir möguleikar og mikil sókn ef vel er staðið að þessu.

Það þýðir ekkert að tala um að auka ferðaþjónustu nema vegirnir séu almennilegir og hægt að komast á milli staða. Svæðið á norðausturhorninu er óunnið að mestu leyti. Það hefði þurft að vera búið að ljúka vegalagningu fyrir Tjörnesið og mynda þennan mikilvæga hring til að auka ferðaþjónustuna. Allar þessar hringleiðir frá flugvelli og frá höfn í Seyðisfirði og norður fyrir, að Dettifossi og til baka, er erfitt að bjóða upp á í dag vegna þess að vegakerfið leyfir ekki að settar séu upp slíkar áætlanir.

[20:45]

Það þarf að efla almannasamgöngur og sumarvegi inn á hálendið. Ég tek undir það sem ég veit að sveitarstjórnarmenn, sérstaklega á Norðurhéraði, eru að tala um, að byggja upp ferðaþjónustu í tengslum við virkjunina. Ég vil meina að við eigum að taka undir þessa hugmynd og byggja vegakerfið upp eins og verið er að tala um, upp Efri-Jökuldal og tengja um Fljótsdalinn yfir í Jökuldal og svo áfram norður þannig að úr verði hringtengingar. Þetta þarf að byggja með tilliti til ferðaþjónustunnar og koma upp þjónustumiðstöðvum á þeim stöðum þar sem ánauðin er mest og menn vita að þarf að vera þjónusta.

Það þarf líka að fjölga landvörðum og að auka öryggisgæslu á hálendinu. Þetta snýr allt, herra forseti, að ferðaþjónustu og uppbyggingu á svæðinu og hef ég ekki nefnt hina stóru og miklu ferju sem kemur að rúmu ári liðnu til Seyðisfjarðar. Þar þarf að undirbúa móttöku ferðamanna svo að við getum byggt upp atvinnu í kringum þessar ferðir, vikulegu ferðir, bæði á sjó og landi svo að fólk keyri ekki bara beint á suðvesturhornið og fljúgi svo þaðan.

Ég hef enn ekki minnst á jarðgöng. Þar er mikið verk sem ég tel að hefði átt að gera á Austurlandi fyrir nokkrum árum síðan. Nú er svo komið að jarðgöng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar eru á vegáætlun eða í jarðgangaáætlun. Jarðgöngin fyrir austan eru fullhönnuð og í raun tilbúin til útboðs. Ég tel að miðað við þá stöðu sem við erum í eigi að koma framkvæmdum í gang fyrir austan, bjóða út jarðgöngin og gera það í tvennu lagi, þ.e. eins og áætlunin segir til um, í heilum pakka, en líka boðið út með fráviki, að heimilt verði að bjóða í sitt hvor göngin. Það er allsendis óljóst hvort kemur betur út í útboði, að bjóða út allan pakkann eða í sitt hvoru lagi. Þetta fer allt eftir stöðu verktaka, því hvernig á stendur hjá þeim, hvort þeir bjóða betur í allan pakkann eða hvort hægt er að fá betra tilboð með því að hafa þetta aðgreint. Mér finnst að miðað við aðstæðurnar núna eigi að bjóða út jarðgöngin, einhenda sér í það og bjóða upp á þetta afbrigði. Menn eiga ekki að hika komi í ljós að betur henti að fara í þetta hvort í sínu lagi. Þá þyrfti ekki að draga það stundinni lengur að fara í jarðgöngin fyrir austan.

Margt er hægt að gera og fara í strax því að verkefnin eru mörg. Fjölmörg brýn verkefni bíða á sviði Náttúrustofu Austurlands, m.a. rannsóknir sem skila sér í atvinnulífið og úr einni atvinnugrein í aðra, m.a. ferðaþjónustuna ef við ætlum að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu. Þarna bíða verðug verkefni.

Fleiri verkefni standa mjög höllum fæti í dag innan ferðaþjónustunnar sem við fyrir austan teljum að verði að vera til staðar til að geta byggt upp til framtíðar, m.a. rekstur fljótabátsins Lagarfljótsormsins sem hefur stundað reglubundnar siglingar yfir sumartímann. Að mínu mati þarf það fyrirtæki að fá styrk, þjónustustyrk til þess að halda þeirri þjónustu áfram. Þjónustan skilar sér út í samfélagið og hefur margfeldisáhrif. Rekstur Lagarfljótsormsins veitir tilbreytingu í ferðaþjónustunni en fyrirtækið verður ekki rekið mörg ár í viðbót nema til komi opinber stuðningur.

Sama má segja um strandsiglingar eða bátasiglingar á milli fjarða og innan fjarða. Þær hafa alveg lagst af. Ef við ætlum að byggja áfram upp gönguleiðir um víkurnar og Gerpissvæðið þá er þetta hluti af því, að geta boðið upp á trússferðir á milli. Til þess þurfum við að hafa þessa báta en þeir eru ekki til staðar í dag. Ég lít svo á að stuðningur við slíkar ferðir sé stuðningur við allt svæðið og frá því ætti að ganga nú þegar.

Herra forseti. Ekkert er nýtt undir sólinni. Fyrr í vetur flutti ég ásamt þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þáltill. um sérstakt átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Við lögðum til að byrjað yrði á Austurlandi, miðað við stöðuna þar. Þar hefur verið mikil fólksfækkun og mikið óöryggi skapast af ýmsum ástæðum, minni kvóti og minni landbúnaður. Þetta óöryggi er m.a. út af þessu álveri. Þetta á ekki bara við um Austurland heldur á þetta við um mörg önnur svæði og í raun tel ég að til lengri tíma litið ættum við ekki að vera í átaksverkefnum heldur ættum við stöðugt að vera í svæðisbundnum verkefnum. Ástæðan fyrir því að þetta er hér sem átaksverkefni er eingöngu staða hinna dreifðu byggða: Austurlands, Vestfjarða, Norðurausturhornsins og fleiri staða. Við teljum að það þurfi hreinlega að setja umtalsvert fjármagn í markvissa uppbyggingu til að einhver leið sé til að snúa byggðaþróuninni við og fara í jákvæða byggðaþróun.

Við lögðum til að farið yrði í verkefni á sviði þróunar byggðamála, viðskipta og menningarmála. Við lögðum til að í sex ár yrði varið 400 millj. kr. árlega til þess. Við töldum að það mætti endurskoða upphæðina en við vildum leggja áherslu á að það þýddi ekki að leggja til þessa smáaura núna heldur þyrfti að fara í verulegt átak. Lagt var til að þróunarfélögunum yrði falið að fara með þetta fé. Að okkar mati þá eru þau best í stakk búin til að meta þörfina. Þar eru hugmyndirnar, þar er þróunarvinnan, þar liggja fyrir umsóknir þeirra sem hafa hugmyndir um úrbætur og þar teljum við að fénu yrði best varið til að fara á þá staði sem best þykir. Með því yrði fé ekki sett nema í fyrirtæki sem hefðu samkvæmt mati einhverja rekstrarmöguleika og væru líkleg til þess að skila atvinnu og einhverjum árangri.

Í þessari tillögu voru nefnd mörg þeirra mála sem ég nefndi hér áðan varðandi ferðamál. Þar eru margar hugmyndir um að beina ferðaþjónustunni inn á margs konar leiðir og nýsköpun á ýmsum sviðum. En ég ætla nú ekki að telja það upp frekar.

Herra forseti. Mig langar til að vitna í umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um þessa þáltill. Ég tel að hún sé með nokkrum ólíkindum því að þáltill. er flutt af einlægni af þeim vilja að leggja eitthvað af mörkum til að snúa byggðaþróuninni við á jákvæðan hátt. Ég vil því, með leyfi forseta, fá að lesa hér upp umsögn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sem er svohljóðandi:

,,Stjórn Sambands sveitarfélag á Austurlandi leggur mikla áherslu á nauðsyn þess að gripið verði til markvissra byggðaaðgerða í landinu og efnt verði til átaks í þeim efnum eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni. Í því sambandi er afar mikilvægt að efla starf á sviði atvinnuþróunar enda traust atvinnulíf forsenda farsæls mannlífs og blómlegra byggða.

Stjórn sambandsins telur jafnframt afar mikilvægt að þegar áhugi vaknar hjá fyrirtækjum að byggja upp arðbæran og áhrifamikinn atvinnurekstur, eins og nú hefur gerst á Austurlandi, þá verði stuðlað að því að slík verkefni verði að veruleika.

Stjórnin er því afar ósátt við hvernig umræddri þingsályktunartillögu er í reynd stillt upp gegn áformum um Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði.

Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur skýra afstöðu til fyrirhugaðrar virkjunar og stóriðju: Sambandið styður þá uppbyggingu og hefur unnið að undirbúningi þeirra verkefna m.a. í samstarfi við Þróunarstofu Austurlands árum saman.

Samband sveitarfélag á Austurlandi telur að tilkoma álvers á Austurlandi geti skapað forsendur fyrir fjölþættri atvinnustarfsemi bæði á sviði iðnaðar og þjónustu. Þá mun fólksfjölgun vegna orkufreks iðnaðar geta stuðlað að eflingu menntunar og menningar í landshlutanum.``

Ég var svolitla stund að átta mig á þessu svari. En nú vildi ég óska að allt þetta gengi eftir. Ég hefði hins vegar seint trúað því að ekki yrði tekið jákvætt undir þá tillögu að fá aukið fjármagn inn í fjórðunginn til að treysta enn frekar það sem verið er að gera og styrkja þau sprotafyrirtæki sem fyrir eru.

Því vildi ég spyrja, herra forseti, hvar sveitarstjórnarmenn á Austurlandi standa ef áform Noral-verkefnisins gengur ekki eftir. Hvar er þá undirbúningurinn fyrir þann raunveruleika að þurfa að treysta á annað en álverið?

Í þessu sambandi vil ég vísa allri ábyrgð á stjórnvöld fyrir að halda ekki uppi kröftugri byggðastefnu, óháð álveri og stóriðju. Það er alltaf óvissa í málinu þar til skrifað hefur verið undir endanlegan samning.

[21:00]

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ályktað um málið almennt hvað varðar stóriðju og uppbyggingu atvinnulífs og vil ég, með leyfi forseta, fá að lesa upp stutta landsfundarsamþykkt sem snýr að þeim málaflokki og sem skýrir þá frekar afstöðu okkar til málsins, því að það er alveg sama hvort framkvæmd af þeirri stærð sem hér um ræðir er á Austurlandi, Vesturlandi eða hér fyrir sunnan, að meta verður hverja framkvæmd af því umfangi og þeim spjöllum og áhrifum sem hver framkvæmd út af fyrir sig veldur, sama hvar hún er, og maður á ekki að láta staðsetningu ráða. Ég held að við séum öll sammála um það að ef við reisum nýtt orkuver þá eigi að nýta orkuna sem næst orkuverinu og sé þá sama hvort við erum fyrir sunnan eða austan, allt annað sé í raun og veru óskynsamlegt og í okkar tilfelli, segi ég, í sambandi við þessa virkjun þá eru það hrein svik.

En, herra forseti, það sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ályktaði er svohljóðandi:

,,Landsfundurinn minnir á þá staðreynd að meiri hluti nýrra starfa verður til í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Áhersla stjórnvalda á uppbyggingu fárra risastórra fyrirtækja gengur þvert gegn dómi reynslunnar og leiðir til einhæfni, en ekki þeirrar fjölbreytni og þess vaxtarumhverfis sem æskilegast er.

Vandi íslensks atvinnulífs felst ekki í því að það skorti tækifæri og möguleika. Fyrir landsbyggðina skiptir mestu að eytt sé þeim aðstöðumun sem er öllu atvinnu- og mannlífi þar mótdrægur að ekki sé talað um þá erfiðleika sem því eru samfara að koma þar nýjum fyrirtækjum á fót og hlúa að nýsköpun og þróun. Lélegar samgöngur, mikill flutningskostnaður, lakari fjarskipti, dýrari orka, erfiðleikar við að sækja sérhæfða þjónustu, vandkvæði á að fá lánafyrirgreiðslu og jafnvel venjulega bankaþjónustu; þetta og margt fleira, ásamt ómarkvissri og máttlausri byggðastefnu, eru erfiðustu hindranirnar í vegi nýsköpunar í atvinnu- og byggðamálum á landsbyggðinni. Stjórnvöldum væri nær að ráðast á þennan aðstöðumun en einblína á eitt álver sem lausn í byggðamálum eða öllu heldur fjarvistarsönnun frá því að aðhafast nokkuð marktækt gagnvart hinum almenna atvinnu- og byggðavanda.

Möguleikar íslensks atvinnulífs til að sækja fram og þróast, jafnt í sveit og borg, eru miklir ef rétt er á málum haldið. Ýmsir nágrannar okkar hafa sýnt að með réttum áherslum og hugarfari er hægt að hafa mikil áhrif til góðs á byggðaþróun jafnvel þó aðstæður séu erfiðar eins og í Norður- og Vestur-Noregi, á vesturströnd Írlands, á skosku eyjunum og í Hálöndunum. Möguleikar fjölbreyttrar ferðaþjónustu, hágæðamatvælaframleiðsla og matvælaiðnaður, vatnsútflutningur, lyfja- og heilsuvöruiðnaður, vistvænn orkubúskapur, hugvits- og þekkingargreinar, listiðnaður og handverk, iðnaður og þjónusta og ýmiss konar virðisaukandi starfsemi tengd undirstöðugreinum eins og landbúnaði og sjávarútvegi; þetta allt og fjölmargt fleira býður upp á ótalmörg tækifæri. Sumar þessara atvinnugreina hafa einmitt verið að stórauka hlut sinn í útflutningstekjum og verðmætasköpun þjóðarinnar undanfarin ár. Það eru því fáar kenningar vitlausari og í raun hættulegri um þessar mundir en álnauðhyggjan, fullyrðingarnar um að ekkert annað en meiri stóriðja og enn þá meiri stóriðja geti skapað hér ný störf og aukið verðmætasköpun. Það er rangt og hættulegt að halda slíku fram. Í því er fólgin vantraustsyfirlýsing gagnvart öðrum sviðum atvinnuþróunar. Þessar áherslur eru á skjön við framsækna atvinnustefnu og það gengur gegn dómi reynslunnar um það hvaða áherslur í nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfi skili mestum árangri.``

Herra forseti. Þetta var úr landsfundarályktun Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um atvinnu- og byggðamál, hluti af þeirri ályktun. Ég vildi lesa hana hér upp til þess að skýra mál okkar og afstöðu enn frekar.

Það sem kemur fram í öllum rannsóknum og könnunum sem varða búsetuþróun, þegar skoðað er hvers vegna fólk flytur af landsbyggðinni yfir á höfuðborgarsvæðið eða til erlendra landa, er að nokkrir þættir eru sammerktir, m.a. möguleikar til menntunar. Því finnst mér að við ættum að horfa sérstaklega á þann þátt þegar við erum að tala um að byggja upp á Austurlandi, snúa þróuninni við, styrkja ímynd svæðisins aftur og sjálfstraust fólks, það er að undirbúa nú þegar frekari möguleika til framhaldsnáms, háskólanáms, og koma á frekari rannsóknum tengdum menntun í háskólum landsins. Við erum með háskólasetur á Höfn og við eigum að koma því á í tengslum við Menntaskólann á Egilsstöðum og byggja þar upp kröftugra menntasvæði. Við erum með góðan menntaskóla sem þarf að stækka og það er orðin brýn þörf og hefur verið mörg undanfarin ár að hlúa betur að húsnæði þess skóla og það er nokkuð sem hægt er að fara í mjög fljótlega og einnig að styrkja Verkmenntaskólann í Neskaupstað. En varðandi símenntun og fjarnám, endurmenntun, þá erum við með öfluga miðstöð sem er Fræðslunet Austurlands og til að hún geti haldið áfram að þróa starf sitt og starfa á þeim grunni sem hún hefur metnað til þarf sú starfsemi líka að fá stuðning og sérstaklega þegar við horfum til þess kostnaðar sem er vegna fjarfundanna og þeirrar tækni sem er notuð við fjarkennsluna. Hússtjórnarskólann á Hallormstað, þann merka skóla, ættum við standa vörð um og efla sem alveg sérstaka perlu í fjórðungnum.

Ég hef nefnt nokkra hluti sem eru okkur mjög mikilvægir, en eru veikir í dag og þurfa styrkingu. Ekki verður hægt að horfa til framtíðar öðruvísi en að koma á háskólasetri eða tengingu við háskólana og rannsóknarstöður. Að mínu mati væri það mjög eðlileg viðbót inn í það umhverfi, að koma því upp í tengslum við skógræktina.

Landbúnaðurinn er ekki lengur sú undirstöðugrein sem var hér á árum áður. En þó að við náum ekki í náinni framtíð að gera landbúnaðinn að sömu kjölfestu og var, þá er sannarlega hægt að styrkja hann. Við eigum að gera það út frá hugmyndum um svæðisbundna landnýtingu og landbúnað þar sem við byggjum upp svæði sem hafa afurðastöðvar sínar og nýta afurðirnar af svæðinu, hvort heldur það eru sauðfjárafurðir eða afurðir af kúabúunum, því það er framtíðin. Við erum að fara í alveg þveröfuga átt við það sem er að gerast í Evrópu og öðrum löndum, að færa landbúnaðarvörurnar burt af svæðinu til vinnslu fjarri uppruna. Við stefnum í verksmiðjubúskap, við stefnum í einhæfni og það er alveg þveröfugt við það sem aðrar þjóðir eru að gera. Ég sé svæðið fyrir austan sem kjörið svæði til að hafa svæðisbundnar áætlanir og styrkingu með því að koma afurðastöðvunum aftur í rekstur innan svæðanna og það mundi sannarlega verða markaðssókn í því. Þannig er sú stefna sem rekin er núna í nágrannalöndum okkar og við eigum að notfæra okkur það að við erum ekki komin í þennan stórbúskap. Við gætum tekið upp þráðinn í raun og veru þar sem aðrar þjóðir eru að reyna að stefna á og við værum á þeim punkti ef við náum að koma afurðastöðvunum aftur til síns heima.

Hægt væri að hafa mörg orð varðandi sjávarútveginn en ég ætla að sleppa því og segja eina setningu: Núverandi sjávarútvegsstefna á stóran þátt í því að byggð hefur hrunið úti á landi. Búið er að færa til kvóta, vinnslan hefur breyst og ég er hrædd um að ef við Austfirðingar stöndum ekki vel á vaktinni núna og pössum upp á þann kvóta sem við höfum þá getum við í andvaraleysi misst eitthvað af honum í burtu við það að vera svo upptekin af álvershugmyndum og ef af þeim álvershugmyndum verður, þá getum við átt það á hættu að missa meiri kvóta í burtu.

Herra forseti. Miðað við þá stöðu sem við erum í núna legg ég til að við legðum virkjunaráformin til hliðar, a.m.k. þar til ábyrgur kaupandi er fyrir hendi og verkefnið verði sett upp með þeim hætti að það verði sem sjálfstæð rekstrareining, óháð almenningsveitunum. Ég legg til, herra forseti, miðað við þær aðstæður að við einhendum okkur í að bjóða út fyrirhuguð jarðgöng fyrir austan með því að bjóða út jarðgangapakka með þeim frávikum sem ég lýsti áðan, að hægt væri að bjóða í allan pakkann eða í sitt hvoru lagi. En göngin fyrir austan eru tilbúin og eru mjög hagstæð jarðgöng sem nauðsynlegt er að fara í, því að við erum búin að fresta kostnaðarsömum vegaframkvæmdum fyrir Vattarnes, og ef ekki verður farið í jarðgöngin verður að fara í einhverjar samgöngubætur fyrir Vattarnesið.

Herra forseti. Miðað við þessar aðstæður þá eigum við að leggja fram töluvert fé til að fara í svæðisbundið átak á forsendum íbúanna sjálfra og gera það núna strax í sumar. Framkvæmd þess átaks ætti að vera í höndum heimamanna með sérstaka áherslu á ferðaþjónustu, nýsköpun eða það sem menn heima fyrir telja að muni skila sér best inn í atvinnulífið. Það sem þarf að gera líka og hefði átt að vera búið að gera er að meta gildi lands fyrir norðan Vatnajökul fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Það er dæmi sem ekki hefur verið gert upp og við ættum auðvitað að hafa til hliðsjónar þegar við afgreiðum þetta mál og tökum land frá fyrir stórt miðlunarlón. Við ættum að hafa möguleika á að bera saman þá tvo kosti fyrir nýtingu svæðisins.

En, herra forseti, að lokum: Það er mikilvægt að sýna í verki stuðning við fjórðunginn í þeirri stöðu sem við erum í núna. Það ríkir andvaraleysi og aðgerðaleysi og það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.