Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:15:16 (6478)

2002-03-21 21:15:16# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:15]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa undrun minni á aðkomu hv. þm. Þuríðar Backman að þessu máli og hvernig hún notaði viðtekna frasa í ræðu sinni þótt hún vissi betur. Í rauninni fór hún yfir það í ræðu sinni eins og þegar hún sagði að ekki væri verið að gera neitt annað á Austurlandi en að bíða eftir álveri. Ég fullyrði að þingmaðurinn veit betur. Ég spyr hana þess vegna:

Veit hv. þm. ekki af því að fé hefur verið sett til þess að LTU geti flogið á Egilsstaði til að efla ferðaþjónustu?

Veit hv. þm. ekki af því að verið er að vinna að hafnarframkvæmdum til að hægt sé að taka á móti stærri og öflugri Norrænu?

Veit hv. þm. ekki af því að mjög öflugt skógræktarátak hefur verið í gangi hjá bændum á Austurlandi og að það er enn að vaxa og stækka?

Ætli þingmaðurinn viti ekki af því að í gangi er öflugt átak núna varðandi laxeldi og fiskeldi ýmiss konar?

Hefur ekki verið átak í gangi varðandi menntamál eins og háskólamenntun?

Og hafa Austfirðingar ekki gengið fram í því að vera með mikla frumkvöðlastarfsemi varðandi menningarmál og gert samning þar að lútandi sín á milli?