Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:21:21 (6481)

2002-03-21 21:21:21# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:21]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að ég verði heldur ekki aftur fyrir því að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir geri mér upp skoðanir og snúi út úr því sem ég hef ekki sagt. Ég veit það manna best, og það hefur aldrei komið annað fram hjá mér en að ég viti hvað Austfirðingar eru að reyna að gera og hefur tekist vel upp með marga þætti, eins og menningarstarfsemina. Þar hafa þeir myndað samtök fyrir allt Austurland til að hafa um það að segja hvernig þeir úthluta fjármunum sínum til menningarstarfsemi. Það segir ekkert að þegar á heildina er litið renni meiri fjármunir til Austurlands en til annarra fjórðunga ef við færum að skoða það en Austfirðingar sjálfir vilja hafa eitthvað um það að segja hvernig þeir úthluta þessum fjármunum og það er af hinu góða. Það er í þeim anda sem ég var að tala áðan, að setja fé til þróunarfélaganna svo að Austfirðingar sjálfir geti úthlutað því á þann hátt sem þeir vita að nýtist fjórðungnum best. Þetta er nákvæmlega í þeim anda.

Þeim hefur aldrei staðið til boða annað en þetta risaálver og þessi risavirkjun. Ef þeir hefðu haft val er hugsanlegt að þeir hefðu valið annað. Það var ekkert annað, álverið og virkjunin við Kárahnjúka er byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir Austurland og ekkert annað. (ArnbS: Ásamt mörgu öðru.)