Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:23:28 (6482)

2002-03-21 21:23:28# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:23]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Við höfum átt ágætar umræður í dag um frv. til laga um virkjun við Kárahnjúka og stækkun Kröfluvirkjunar. Að sönnu hefur í sjálfu sér komið í ljós enn og ítrekað að hér er góð samstaða í þingsölum um málið, að undanskildum skoðunum vinstri grænna. Þeir hv. þm. eru haldnir sömu þráhyggju um öll framfaramál sem til heilla gætu horft í atvinnumálum þjóðarinnar. Þeir eru einfaldlega á móti.

Þeir eru á móti virkjun fallvatna. Þeir eru á móti virkjun jarðgufu. Þeir eru á móti byggingu álvers. Við höfum reyndar orðið vitni að því margoft í þingsölum að þeir eru á móti nálega öllum málum sem lúta að því að auka hagvöxt og bæta lífskjör þjóðarinnar. Þeir eru að vísu á móti þessu á mismunandi forsendum, sumir eru á móti á forsendum umhverfismála en aðrir á forsendum arðsemi. Þeir sem eru á móti á forsendum arðsemi hafa reyndar neitað að skoða arðsemina. Það er því með dálítið sérstökum hætti sem þeir mynda sér skoðanir en við verðum að segja sem svo að það er mjög gott til þess að vita að hv. þm. Samfylkingarinnar hafa ákveðið að styðja þetta mál sem við fjöllum um í dag og í kvöld. Fyrir það ber að þakka því hér er um mikið framfaramál að ræða.

Reyndar er ljóst að virkjun við Kárahnjúka er mikil ágætisframkvæmd. Hún er umhverfisvæn. (Gripið fram í: ... kíkja á það?) Og það er ljóst að arðsemi framkvæmdarinnar er góð. (Gripið fram í: Hvað segir Ögmundur?) Eins og hv. þingmenn ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gefa þingmanninum hljóð.)

Eins og hv. þm. kalla hér fram í er arðsemin góð að mati Norsk Hydro og mjög margra annarra aðila. En af því að kallað var hér fram í hvort það væri að mati hv. þm. Ögmundar Jónassonar hef ég ekki heyrt það frá honum enn þá en kannski mun hann skoða málið og kanna arðsemina og koma svo með endurskoðað mat sitt í þingsal. Ég trúi því enda vill hv. þm. (Gripið fram í.) vinna verk sín vel í þingsölum og ég trúi því að hann skoði fyrra mat sitt af mikilli alvöru og komi með nýtt hingað inn í þingsali.

Það er alveg ljóst að arðsemi þessarar framkvæmdar er mjög góð og um það eru allir þeir aðilar sammála sem eru til þess bærir þó að tekið sé tillit til allra hugsanlegra varúðarsjónarmiða. Raunarðsemi virkjunarinnar er talin vera 6,3--6,4% sem er 1% umfram ávöxtunarkröfu verkefnisins, og verkefnið borgar upp stofn- og vaxtakostnað á innan við 30 árum. Þó er líftími þessarar framkvæmdar a.m.k. 80--100 ár.

Einnig hefur komið fram að áhugi lífeyrissjóðanna er heilmikill á málinu og eins og kemur fram í nál. hv. iðnn. gera lífeyrissjóðirnir ráð fyrir að vera með alls um 25% af fjármögnuninni. Það er ljóst að þetta er reyndar ekki mjög stór hluti af eignum lífeyrissjóðanna, þ.e. á bilinu 1--1,5% af eignum hvers og eins þeirra. M.a. hafa fulltrúar lífeyrissjóðanna bent á að fjárfesting lífeyrissjóðanna í verkefninu næmi u.þ.b. 10 milljörðum á 6--7 árum en sjóðirnir hafa yfir 100 milljarða til ráðstöfunar til fjárfestinga árlega. Því er ljóst að lífeyrissjóðirnir líta mjög jákvætt til þessa máls og ég trúi því að þeir taki fullan þátt í þessu þegar niðurstöðu verður náð.

Þjóðhagsstofnun hefur talið þetta vera mjög gott verkefni. Hún telur að landsframleiðsla verði rúmlega 2% meiri á framkvæmdatímanum en ella hefði orðið en þjóðarframleiðsla 1--1,5% meiri, og gerir jafnframt ráð fyrir því að fjárfesting verði um 12% hærri en annars hefði verið á framkvæmdatímanum. Það er u.þ.b. 0,5% sem gert er ráð fyrir í vinnuaflsnotkun af heildarframboði vinnuafls þannig að það er algjörlega ljóst að þeir sem hafa skoðað þetta af mikilli alvöru líta ótvírætt á þetta sem mjög góða framkvæmd.

[21:30]

Eftir að framkvæmdum lýkur og fullum afköstum hefur verið náð eykst útflutningur um 14% og landsframleiðsla gæti orðið 1,5% hærri til lengdar en ella og þjóðarframleiðsla um 1% hærri. Þannig er augljóst af þessum tölum að þarna er bæði um byggðaaðgerð og þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd að ræða.

Varðandi byggðamálin bendir Þjóðhagsstofnun á að ef ekki verði af verkefninu megi gera ráð fyrir að fólki haldi áfram að fækka á Austurlandi. Ekki er það, hæstv. forseti, það sem við viljum sjá. Það hefur ASÍ tekið undir og hér hefur margoft komið fram að ASÍ hefur lýst yfir stuðningi við þessi áform og leggur sérstaka áherslu á að framkvæmdirnar séu mjög mikilvægar fyrir uppbyggingu atvinnu og lífskjör launafólks, bæði á Austurlandi og um landið allt. Þannig þarf ekki að velkjast í vafa um það, hæstv. forseti, að hér er ákaflega skemmtileg framkvæmd í ljósi allra þeirra þátta sem ég hef hér rakið, byggðamála, arðsemi af framkvæmdinni, þjóðhagslegrar hagkvæmni, og þess að við skulum yfir höfuð nýta hinar góðu orkulindir okkar til að framleiða vistvæna og umhverfisvæna orku. Við hljótum að fagna því að sjá fyrir endann á því verkefni.

Ég ætla ekki að lengja þetta frekar, hæstv. forseti, en ég vil samt nefna að í umfjöllun þeirra nefnda á Alþingi sem hafa farið yfir málið --- það á við um meiri hluta hv. umhvn., hv. efh.- og viðskn. og síðan að lokum þetta nál., mjög vandaða nál. sem liggur hér fyrir frá meiri hluta iðnn. --- er ljóst að allt mælir með því að af þessum framkvæmdum geti orðið. Meiri hluti efh.- og viðskn. mælir t.d. eindregið með samþykkt frv. og dregur fram að álverið og virkjunin leiði til þess að útflutningurinn aukist verulega og nefnir að útflutningur aukist um 14% fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda.

Í öðru lagi tala þeir um að virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar séu mjög líklegar til að verða arðsamar fyrir fyrirtækið og í þriðja lagi nefna þeir að búseta á Austurlandi muni styrkjast og þetta hafa jákvæð áhrif á lífskjör Austfirðinga.

Fjmrn. og Seðlabankinn draga fram að þeir hafi bent á vanda sem gæti skapast vegna umframeftirspurnar í hagkerfinu og telja að grípa þurfi til mótvægisaðgerða en vilja þó vekja athygli á að framkvæmdir á Austurlandi séu líklegar til að skapa tiltölulega minni þensluáhrif en ef þær væru nær höfuðborginni þar sem töluverð ónýtt þjónustugeta er á svæðinu og dulið atvinnuleysi vegna hagræðingar í hefðbundnum atvinnugreinum svæðisins.

Þetta skiptir mjög miklu máli, hæstv. forseti. Það er ekki nóg með að við Austfirðingar höfum tapað mörgum íbúum okkar hingað til suðvesturhornsins og reyndar að nokkru leyti til útlanda heldur er það einnig svo að til er mikið dulið atvinnuleysi í hefðbundnum atvinnugreinum. Þensluáhrifin af þessu, sem menn hafa gert nokkuð mikið úr, þau verða í raun alls ekki eins mikil og af hefur verið látið. Áhyggjur og úrtölur varðandi það að vinnumarkaðurinn á Austurlandi beri ekki svo stórt verkefni eru algjörlega fráleitar. Rétt er að minna á að sá fólksfjöldi sem flutt hefur frá Austurlandi, aðeins á fáum árum, hefði getað mannað fyrirhugað álver. Ég þekki Austfirðinga það vel að ég er sannfærð um að fái þeir góða atvinnu í heimabyggð munu þeir flytja til baka. Það er augljóst að áhrifin sem þessi framkvæmd hefur mun gera að verkum að Austfirðingar geti flutt heim og starfað annaðhvort við álverið eða í öðrum greinum sem munu vaxa og dafna í kringum þessar framkvæmdir og í framhaldinu þegar vinnsla hefst í álverinu.

Það er einnig rétt að minna á að það hefur ekki verið spurt að því sunnanlands hvort umframvinnuafl væri til staðar þegar ráðist hefur verið í einstakar framkvæmdir. Menn hafa ekki haft sérstaklega miklar áhyggjur af því hér á Suðurlandinu.

Ég nefni þetta þar sem augljóst er að Íslendingar eru býsna hreyfanlegir í landinu. Þess vegna munu þeir væntanlega flytja sig, bæði brottfluttir Austfirðingar og aðrir þeir sem telja hag sínum vel borgið á Austurlandi, munu flytja sig þangað til þess að starfa við þessar framkvæmdir og síðan við álverið. Ég hef því ekki áhyggjur af þessu, þ.e. að vinnumarkaðurinn á Austurlandi beri ekki þessar framkvæmdir.

Hæstv. forseti. Það er ljóst að það er mjög nauðsynlegt að þessar framkvæmdir fari af stað og það hik sem nú hefur komið fram hjá Norsk Hydro má ekki verða til að þessum framkvæmdum verði frestað um mjög langan tíma. Það er nauðsynlegt að þessi virkjunarheimild fari í gegnum þingið þannig að hægt sé að halda áfram af festu með þetta mál og hægt verði að tala við fleiri fjárfestingaraðila og fleiri sem tilbúnir eru að koma inn í þessar framkvæmdir. Ég tel algjörlega ástæðulaust að gefast upp við þetta verkefni. Það er þolinmæðisverk að vinna að slíkum stórsamningum og þegar unnið er að slíku má alltaf búast við einhverjum töfum.

Við höfum svo sannarlega vonast til að framkvæmdir gætu hafist núna á sumri komanda við undirbúninginn að virkjuninni. Það er svo sem ekki öll nótt úti með það enn þá. En öll töf veldur að vísu mjög miklum vandræðum og ekki gott að það dragist mikið lengur að Norsk Hydro gefi skýr svör. Það er alveg ljóst að Norsk Hydro telur að þetta verkefni sé mjög arðsamt og lofi mjög góðu. Þó að þeir hafi farið í þessar fjárfestingar í Þýskalandi telja þeir um þessar mundir að þeir gætu lent í erfiðleikum með tímasetningar. Vonandi eru þeir erfiðleikar ekki miklir.

Það er mjög mikilvægt, ég vil leggja á það sérstaka áherslu, að Alþingi klári þetta mál núna. Það gæti auðveldað áframhaldandi umræður og samninga við önnur stóriðjufyrirtæki þannig að þeir gætu þá komið að verkefninu í því ástandi að búið væri að ljúka allri undirbúningsvinnu eins og hægt er. Það er algjörlega ljóst að ríkisvaldið hefur staðið við allt það sem reiknað var með að það kæmi að, í vegaframkvæmdum og öðru sem átti verða til þess að verkefnið yrði að veruleika. Þáttur í því er það að við ljúkum störfum okkar hér á Alþingi við þetta ágæta frv. sem hér er til umræðu.