Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:41:42 (6483)

2002-03-21 21:41:42# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. staðnæmdist við afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í upphafi máls síns og vakti athygli á því að við værum andvíg stóriðjuáformum stjórnvalda. Það er hárrétt athugað. Við erum andvíg áformunum á tvennum forsendum.

Í fyrsta lagi á forsendum umhverfisverndar. Við teljum að þessar ráðagerðir muni spilla stórlega náttúru Íslands á óafturkræfan og óafsakanlegan hátt og í öðru lagi teljum við ekki efnahagslegar forsendur fyrir þessu verkefni.

Hv. þm. bendir á að með smíði risaálverksmiðju muni útflutningur frá Íslandi aukast. Að sjálfsögðu mun það gerast. Hv. þm. bendir á að um leið og hundruðum milljarða er spýtt inn í hagkerfið muni þjóðarframleiðsla aukast. Að sjálfsögðu mun þjóðarframleiðsla aukast.

Spurningin sem menn eru hins vegar að velta fyrir sér er þessi: Hver er tilkostnaðurinn við að auka útflutning með þessum hætti? Hver er tilkostnaðurinn við að auka þjóðarframleiðslu með þessum hætti?

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum sett fram tillögur um að stuðla að atvinnuuppbyggingu á Austurlandi og á Íslandi yfirleitt á allt öðrum forsendum en þessum. Ég vil benda á að þær efnahagsstofnanir sem hv. þm. vísaði til, þ.e. Seðlabanka og jafnframt til ýmissa efnahagssérfræðinga, hafa haft uppi ákveðin varnaðarorð. Það hefur verið vísað í þenslu. Það hefur verið vísað í vexti og menn hafa velt mjög vöngum yfir því, jafnvel aðilar sem eru dags daglega hallir undir stjórnarstefnuna, hvort íslenska hagkerfið rúmi framkvæmd af þessari stærðargráðu.

Ég veit að þetta var stefna sem kynnt var á sínum tíma í Rússlandi Stalíns. hún átti ekki við þá og hún á ekki við á Íslandi í dag.